Fjórar mikilvægar spurningar
Þriðjudagur, 11. janúar 2011
Einn merkasti skólamaður sem við höfum átt er minn gamli skólameistari Tryggvi Gíslason, sem gerði Menntaskólann á Akureyri að einni bestu menntastofnun landsins. Við Tryggvi verðum seint sammála í pólitík en það breytir því ekki að um margt erum við sammála.
Tryggi skrifar á bloggsíðu sína að stóra spurningin sé sú hvert "íslenska þjóðin vill stefna, hvort kjósendur vilja breytingar, hvort almenningur vill breytingar á viðhorfi til lífsgæða - og menn spyrji sjálfra sig, að hverju þeir vilja stefna í lífinu". Tryggvi skrifar síðan:
"Eitt af því sem gamall skólameistari að norðan spurði nemendur meira en aldarfjórðung var: Hver ert þú? Hvaðan ert þú? Hvert vilt þú stefna - og hvað viltu verða? Gamli skólameistarinn hefur sjálfur spurt sig þessara spurninga - og ekki haft illt af. Því er sennilegt að ýmsir aðrir, alþýða manna, almenningur, kjósendur, alþingismenn og -konur og ráðamenn þessarar dugmiklu þjóðar hafi einnig gott af því að spyrja þessara fjögurra spurninga."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook