Siðferðisskrúfur og ærlegheit
Sunnudagur, 9. janúar 2011
Davíð Oddsson fer hörðum orðum um forystumenn ríkisstjórnarinnar og meirihluta þeirra þingmanna sem styðja ríkisstjórnina, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Hann segir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafi beitt ómerkilegum blekkingum í umfjöllun um bankahrunið, Magma-málið, ESB-mál, Icesave, AGS og fleiri mál. Hið sama gildi um Össur Skarphéðinsson, sem sé sérstakt aðhlátursefni í evrópskum fjölmiðlum:
"Þess vegna er vaxandi óróleiki innan VG, þar sem ekki vantar siðferðisskrúfuna í alla þingmenn eins og virðist vera í Samfylkingunni."
Þúsundir kjósenda, sem kusu VG í síðustu kosningum gerðu það í góðri trú vegna þess að þeir löðuðust að loforðum, heitstrengingum og helgum stefnumiðum flokksins, segir í Reykjavíkurbréfinu:
"Vonbrigði þessara þúsunda og réttlát reiði er smám saman að skila sér í óróleika ærlegra þingmanna innan flokksins. Þar eigast því við "ærlega deildin" og "svikula deildin". Og það má öllum vera ljóst að ætli svikula deildin algjörlega að valta yfir ærlegu deildina er flokkurinn feigur."
Davíð telur enga ástæðu til að skilgreina hverjir tilheyri hvaða deild innan VG. Slíkt virðist augljóst miðað við skrifin. Þannig er niðurstaðan sú að innan VG er "svikul" deild og siðferðisskrúfuna vantar í alla þingmenn Samfylkingarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Facebook