Eftirlaunafrumvarpið og Steingrímur
Sunnudagur, 9. janúar 2011
Vinstri menn og þá ekki síst samfylkingar hafa sýnt einstaka tækifærismennsku í pólitík og eru umdeild eftirlaunalög þingmanna sem samþykkt voru árið 2003, gott dæmi um það. Með hreint mögnuðum hætti hefur þeim tekist að hafa endaskipti á hlutunum og talið stórum hluta þjóðarinnar trú um að einn maður beri ábyrgð á málinu og þar með tryggt sér lífeyrisréttindi langt umfram það sem aðrir njóta og langt umfram það sem réttlætanlegt og talið er eðlilegt.
Það er sérstakt rannsóknarefni fyrir fræðimenn í stjórnmálum að kanna hvernig andstæðingum Davíðs Oddssonar, tókst með snilldarlegum hætti að snúa staðreyndum á haus og láta hann sitja eftir með Svarta-Pétur.
Staðreyndin er sú að Davíð Oddsson flutti ekki frumvarpið til eftirlaunalaga. Hann átti heldur ekki frumkvæði að því að það var lagt fram. Flutningsmenn voru þingmenn allra flokka sem sátu í forsætisnefnd: Halldór Blöndal, Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz, Þuríður Backman, Sigurjón Þórðarson. Þannig var pólitísk samstaða um frumvarpið milli allra flokka, þó menn hafi síðan reynt að flýja málið eftir að í ljós kom að það féll í grýttan farveg meðal almennings.
Þeir sem áttu frumkvæði að því að frumvarpið var lagt fram voru forystumenn þáverandi stjórnarandstöðu, þeirra á meðal Steingrímur J. Sigfússon, núverandi fjármálaráðherra. Þó Davíð Oddsson staðfesti þetta ekki með beinum hætti er ljóst af skrifum hans í Reykjavíkurbréf nú um helgina að svo er. Þar segir meðal annars:
"Bréfritari hefur um áraraðir setið undir miklum árásum vegna "eftirlaunafrumvarpsins alræmda". Hann hefur allt fram til þessa stillt sig um að gera grein fyrir tilurð þess máls og aðdraganda og mun enn um hríð stilla sig um það. En honum er þó nær óskiljanlegt að Geir H. Haarde hafi aldrei upplýst um tilurð málsins og hverjir höfðu að því allt frumkvæði, ekki síst eftir að SJS lagði á hann hendur í þingsal og þóttist svo árum síðar vera með brostið hjarta í brjóstinu eftir að hafa haft forystu um að draga "heiðursmanninn" Geir H. Haarde fyrir landsdóm, fyrirbæri sem best á heima í Þjóðskjalasafninu og starfar eftir lögum sem sjálfur saksóknari Alþingis telur sig ekki geta brúkað."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook