Handboltinn læstur inni
Laugardagur, 8. janúar 2011
Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með deilunni milli RÚV og 365 vegna handboltans. Auðvitað var það ljóst að 365 gátu aldrei fallist á tilboð frá RÚV með 20% álag, þar sem fyrirtækið hefur undanfarnar vikur verið að selja áskriftir að Stöð 2 Sport, vegna handboltans. Á mínu heimili hefur þess verið krafist að kaupa áskrift, en það verður ekki.
Aðrir fjölmiðlar ýmist gera grín að þessu öllu eða gagnrýna stjórnvöld fyrir að tryggja ekki opinn aðgang að landsleikjum Íslands. Morgunblaðið segir í leiðara:
"Hvernig stendur á því að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra lét það viðgangast að handboltinn yrði læstur inni í sjónvarpi 365? Var ríkisstjórnin ekki búin að veita eigendum fyrirtækisins næga þjónustu? Var ekki nóg að banki ríkisins gerði eigendunum kleift að eiga fyrirtækið áfram þrátt fyrir að hafa sett það og fleira í gjaldþrot? Dugði ekki að ríkisbankinn breytti síðan lánaskilmálum til að eigendurnir gætu haldið fyrirtækinu? Var líka nauðsynlegt að leyfa eigendunum að læsa þjóðaríþróttina inni? Hversu langt ætlar ríkisstjórnin að ganga í þessari sérkennilegu þjónustu?"
Á DV hæðast menn að öllu saman en í sandkorni segir:
"Einhverjir landsmenn bíða spenntir eftir að heimsmeistaramótið í handbolta hefjist. Enn og aftur beinast augu manna að strákunum okkar eins og landsliðið er gjarnan nefnt. En nú er staðan sú að Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir eigendur Stöðvar 2 hafa tryggt sér einkarétt á sýningum frá leikjum landsliðsins sem verða flestir í læstri dagskrá og því ekki aðgengilegir fyrir nema lítinn hluta þjóðarinnar. Nú kalla gárungarnir landsliðið strákana hans Jóns Ásgeirs."
Vefmiðilinn AMX beinir spjótum sínum að eigendum 365 og forstjóra fyrirtækisins, sem lýsti því yfir að hann hefði miklar áhyggjur af fólkinu á Íslandi sem á ekki fyrir mat. Hann lagði til að þeir fjármunir sem RÚV ætlaði að verja til kaupa á sýningarréttinum yrðu nýttir til að eyða biðröðum eftir mat. Smáfuglar AMX eru ekki hrifnir og segja verið sé að gera grín að almenningi og segja síðan:
"Á móti spyrja smáfuglarnir hvort ekki hefði verið betra að nýta þá fjármuni ríkisbankans, sem farið hafa í að halda lífi í fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs, til að styðja við þá sem eiga erfitt eftir hrunið. Ef eitthvert réttlæti væri í heiminum ætti Jón Ásgeir að vera fastur í biðröðinni en þeir sem leita til hjálparstofnana í fullri vinnu."
RÚV hækkaði tilboð sitt í HM tvisvar sinnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook