Atli Gíslason gagnrýnir Steingrím J. og Samfylkinguna harðlega

Atli Gíslason, þingmaður og félagi í órólegu deildinni í Vinstri grænum, er með skýr skilaboð til forystu flokksins: Ég felli mig ekki við flokksræði og ég mun berjast gegn hjarðhegðun. Alti er einnig með skilaboð til Samfylkingarinnar: Framkoma ykkar er ódrengileg og ómálefnaleg.

Í grein sem Atli Gíslason birtir í Morgunblaðinu í dag - sama dag og þingflokkur VG kemur saman - er harðorð gagnrýni á Steingrím J. Sigfússon, formann flokksins, Árna Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformann og Björn Val Gíslason varaformann fjárlaganefndar og sérstakan talsmann Steingríms J. Alti sendir forystu Samfylkingarinnar einnig kaldar kveðjur vegna framkomu hennar í garð þremenninganna sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga.

Atli minnir á niðurstöðu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrsla þingmannanefndarinnar, sem Atli veitti forystu var samþykkt samhljóða á þingi en þar er meðal annars bent á að "eitt einkenni stjórnmálamenningar hér á landi sé að foringjar eða oddvitar flokkanna leiki lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður sé atkvæðalítill". Þar sem stjórnsiðir séu slæmir og stjórnkerfið veikt geti sterkir stjórnmálamenn verið varasamir (skot á Steingrím J. Sigfússon?):

"Í foringjaræði verði hlutverk löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hóp lykilmanna."

Atli dregur í efa að dreginn hafi verið lærdómur af þeirri gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu sem sett hafi verið fram:

"Ég hef um langa hríð innan flokks míns og þingflokks leitast við að koma fram sjónarmiðum gegn ESB umsókninni, gegn einkavæðingu auðlinda, fyrir breyttri efnahagsstefnu o.fl. en sjónarmiðin hafa að mestu fallið í grýttan jarðveg flokksforystunnar. Síðast lagði ég ásamt flokkssystkinum mínum, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur, fram ítarlegar hugmyndir og tillögur um breytingu á fjárlögum. Rauði þráðurinn var að verja grunnstoðirnar og koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi og brottflutning af landinu. Ég batt vonir við að fá málefnalega umræðu. Þær rættust ekki. Varaformaður fjárlaganefndar taldi þær lítilsvirðingu við störf nefndarinnar og starfandi þingflokksformaður VG kvað upp úr með það í greinargerð að skoðanir okkar væru ódrengilegar."

Hér skýtur Atli föstum skotum á félaga sína í þingflokki Vinstri grænna. En hann lætur ekki þar við sitja heldur snýr sér að samstarfsflokknum. Hann bendir réttilega á að forystumenn Samfylkingarinnar (Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson) hafi kallað þingmenn VG ketti, Lilju Mósesdóttur hryssu, Ásmund Einar Daðason og Atla folöld hennar. Ágreiningurinn hefur verið persónugerður, segir Atli og þau þremenningar gerð tortryggileg:

"Hvað skyldi koma næst úr dýraríki þessarar umræðu? Eigum við að tala um nöðrur, amöbur og kamelljón? Ég tek ekki þátt í því. Ég tek heldur ekki þátt í því að leggja illt til ráðherra Samfylkingarinnar. Að sama skapi frábið ég mér ómálefnalega og persónulega gagnrýni liðsmanna Samfylkingarinnar á Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hefjum íslenska stjórnmálamenningu til virðingar og forðumst þá hjarðhegðun sem varð okkur svo dýrkeypt fyrir hrunið."

Það er enginn sáttatónn í skrifum Atla og ljóst að honum er stórlega misboðið. Ekki verður séð hvernig Atli Gíslason og félagar í órólegu deildinni geta tekið höndum saman við aðra í þingliði Vinstri grænna, án þess að komið verði til móts við sjónarmið þeirra. Og harla er það ólíklegt að Atli og félagar séu það geðlausir að sitja áfram og styðja Jóhönnu og Össur, án formlegrar afsökunar þeirra samhliða loforði um breytt vinnubrögð.


mbl.is Pirringurinn eykst innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband