Forystuleysi VG og svik við stefnuna skýrir ósættið

Forystuleysi Vinstri grænna í vandasömum ráðuneytum og svikin stefna í Evrópumálum er megin ástæða þess mikla ósættis sem einkennir flokkinn. Gerða þarf gagngera breytingu á þessu, ásamt því að auka veg umhverfismála, eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar. Þetta er mat Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi ráðherra og félaga í VG. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag heldur Hjörleifur því fram að ekki hafi tekist að halda "lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi". 

Hjörleifur leggur mat á stöðu stjórnmálaflokkanna í eftirleik hrunsins:

"Flokkarnir þrír sem um stjórnvölinn héldu, lengst af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og Samfylkingin á lokaspretti, eru eðlilega laskaðir og í sárum eftir það sem gerðist og hafa engan veginn náð að rétta við og verða trúverðugir í augum margra fyrrum stuðningsmanna. Engin viðhlítandi endurskoðun hefur farið fram á stefnu þeirra og starfsháttum og látið hefur verið við það sitja að skipta út nokkrum andlitum og biðja alþjóð óskilgreindrar afsökunar á þætti þeirra í ófarnaði liðinna ára. Afkvæmi þessarar framgöngu flokkanna hafa birst m.a. í nýjum framboðum eins og Borgarahreyfingunni sem gufaði upp og Besta flokknum sem situr uppi með skrekkinn eftir að hafa óvænt fengið fjöldafylgi í höfuðstaðnum. Vinstri grænir sem komu óspjallaðir frá hruninu og gerðust burðarás í ríkisstjórn fyrir tveimur árum, hafa ekki megnað að veita samtímis forystu í vandasömum ráðuneytum og halda lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi, sem margir höfðu átt hlut að, m.a. í aðdraganda alþingiskosninganna 2007. Það ásamt því að bregðast yfirlýstri stefnu um andstöðu við aðild að Evrópusambandinu er meginástæðan fyrir því ósætti innan VG sem blasað hefur við alþjóð nú í meira en ár. Á hvoru tveggja þarf að verða gagngerð breyting eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar samtímis því að umhverfismálin þurfa að fá meira vægi í stefnumörkun hans en hingað til."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband