Ríkisstjórnin: Borgaraleg gildi og frjáls viðskipti af hinu illa

Brynjar Níelsson, hrl. og formaður Lögmannafélags Íslands heldur því fram að okkur Íslendingum hafi tekist að viðhalda sorginni og reiðinni af mikilli elju á nýliðnu ári. Þetta hafi tekist með hjálp sumra stjórnmálamanna, fjölmiðla og bloggara.

Í hnitmiðuðum áramótapistli í áramótablaði Viðskiptablaðsins segir Brynjar að stjórnvöld hafi af sérstöku lánleysi og flumbrugangi náð að auka enn á reiðina og vonbrigðin með óraunhæfum væntingum:

"Það sem bjargaði þessari þjóð frá algeru hruni er sennilega setning neyðarlaganna 2008 og neitun þjóðarinnar að borga Icesave. Þá skipti máli að ríkissjóður var nánast skuldlaus þegar ósköpin dundu yfir."

Brynjar heldur því fram að það sé mikill misskilningur að aðgerðir sitjandi ríkisstjórnar hafi bjargað einhverju. Að mati hans voru aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja ómarkvissar, flóknar, dýrar og hafi í raun komið að litlum notum:

"Nýlegt samkomulag við bankana og lífeyrissjóðina breytir engu enda sömdu fjármálafyrirtækin ekki um aðrar afskriftir en þær sem voru óumflýjanlegar. Stjórnvöldum hefur hins vegar tekist að eyða stórfé í tilgangslaus eða ótímabær verkefni eins og þjóðfundi og stjórnlagaþing."

Dómur Brynjars yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er harður og óvæginn og hér verður honum ekki mótmælt:

"Stjórnvöldum hefur tekist með mikilli lagni á þessu ári [2010] að sannfæra almenning um að hefðbundin borgaraleg gildi og frjáls viðskipti sé af hinu illa og hafi orsakað hrunið. Því hefur ríkisstjórnin náð að koma í veg fyrir stórframkvæmdir og erlendar fjárfestingar. Jafnvel fengið almenning til að trúa því að verðmætasköpun framtíðarinnar felist í peningaaustri úr ríkissjóði í listir og menningu."

Ríkisstjórninni mistókst gjörsamlega að innleiða gegnsæi og berjast gegn siðspillingu. Brynjar bendir með réttu á að leyndin hafi aldrei verið meiri og "gegnsæið er helst í pólitískum ráðningum, sem sennilega hafa aldrei verið fleiri". 

Brynjar er ekki sérlega bjartsýnn á nýtt ár ef stjórnvöld breyta ekki stefnu sinni í atvinnumálum. Og ekki er bjartara yfir stjórnmálum:

"Persónukjör og endalausar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekkert með lýðræði að gera eins og margir halda. Slíkt fyrirkomulag myndi leiða í auknum mæli til lýðskrumsræðis og þrýstihóparæðis. Það er ekki það sem þjóðin þarf. Hættum pólitískum nornaveiðum og leyfum réttarkerfinu að vinna úr hrunmálunum eftir leikreglum réttarríkisins. Stjórnmálamenn eiga að leiða þjóðina úr sorginni og reiðinni með bjartsýni og áræðni að vopni. Ólíklegt er að það gerist með núverandi stjórn."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband