Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill stefnuna á sölutorg Samfylkingarinnar

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á erfitt með að sætta sig við að mikill meirihluti landsfundarfulltrúa flokksins, skuli hafa lagst gegn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðanakannanir sýna að þar stigu landsfundarfulltrúar í takt við mikinn meirihluta kjósenda flokksins og raunar meirihluta Íslendinga. 

Í einkar sérkennilegum pistli, sem Jórunn skrifar á Eyjuna 28. desember viðurkennir hún að sér hafi verið heitt í hamsi eftir að landsfundur samþykkti tillögu gegn aðildarumsókn. Jórunn tilheyrir minnihlutahópi sem er nokkuð hávær, en nokkrir hafa sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa, þar á meðal séra Þórir Stephensen og Guðbjörn Guðbjörnsson sem vinnur að stofnun stjórnmálaflokks. 

Ég geri enga athugasemd við að karlar og konur berjist af ástríðu fyrir hugsjónum sínum og hlaupi kapp í kinn. Það vantar meiri ástríðu og eldmóð í íslensk stjórnmál. En þegar hugsjónir verða undir eiga þeir sem taka þátt í starfi stjórnmálaflokks aðeins um tvo kosti að velja. Þeir geta sætt sig við niðurstöðu meirihlutans og unnið samkvæmt því (jafnvel í þeirri von að árangur náist síðar) eða þeir yfirgefa vettvanginn og leita annars til að vinna hugsjónum sínum fylgis.

Jórunn telur að sjálfstæðismenn eigi að elta Samfylkinguna. Þannig telur hún eðlilegt að Samfylkingin marki brautina og að Sjálfstæðisflokkurinn gangi hina ruddu braut. Jórunn skrifar meðal annars:

"Það er ekki hægt að horfa upp á það, meðan allt er á hraðri niðurleið í þessu landi og alger stöðnun að verða að veruleika að Sjálfstæðismenn og Samfylking geti ekki starfað saman. Samvinna þessara tveggja flokka er að mínu mati það eina sem getur komið hagkerfinu í gang og atvinnulífinu af stað. Núverandi ríkisstjórn er algerlega óhæf til þess og finnst mér málum svo komið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar beri hreinlega skylda til þess að slíðra sverðin og vinna saman að þeim brýnu málum sem nú þarf að leysa og það án tafar. Sjálfstæðismenn á alþingi með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar þurfa að vinna áfram að samningi við ESB og leggja frumvarp Unnar Brár til hliðar svo þessir tveir flokkar geti unnið saman."

Þannig telur Jórunn það fullkomlega eðlilegt að sjálfstæðismenn leggi hugsjónir sínar til hliðar - bjóði þær upp á pólitískum uppboðsmarkaði, þar sem Samfylkingin er eini kaupandinn. Stjórnmálamenn sem hugsa á þessum nótum eru hættulegir stjórnmálamenn. Þann dag sem Sjálfstæðisflokkurinn setur grunnhugsjónir sínar á uppboðstorg stjórnmálanna, er dagurinn sem fyrsti naglinn er rekinn í kistu flokksins. 

Jórunn heldur því fram að andstaðan við aðild að Evrópusambandinu sé í "hróplegu ósamræmi við stefnu flokksins og hugmyndafræði". Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig borgarfulltrúinn getur komist að þessari niðurstöðu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 var fullveldi og sjálfstæði landsins mikilvægasta stefnumálið samhliða því að "vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum". Eftir síðari heimstyrjöldina koma það í hlut Sjálfstæðisflokksins að marka stefnuna í utanríkismálum. Sú stefna hafði það eitt að markmiði; að verja sjálfstæði þjóðarinnar.

Aðild að Evrópusambandinu, með því afsali fullveldis sem felst í aðild, gengur því gegn sögu og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Forysta Sjálfstæðisflokksins gegnir því mikilvægu hlutverki og það hlutverk felst ekki í því að gangast undir stefnu Samfylkingarinnar, líkt og Jórunn Frímannsdóttir telur nauðsynlegt. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna gerir þá kröfu til forystu flokksins að hún sé trú sögu og stefnu flokksins með sama hætti og gert var í sjálfstæðismálinu og á tímum kalda stríðsins. Þá fór flokkurinn aldrei á sölutorg og bauð stefnu sína til sölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband