Sagði AGS beita fjárkúgun
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Lilja Mósesdóttir er hægt en örugglega að segja skilið við Vinstri græna og Steingrím J. Sigfússon sérstaklega. Það er ágætt hjá henni að halda orðum formannsins til haga en Steingrímur J. hefur farið í 180 gráður þegar kemur að samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), og skal látið liggja á milli hluta hvort hann sem stjórnarandstæðingur hafði rétt fyrir sér eða ekki.
Lilja hefði átt að rifja upp fleiri ummæli og skoðanir Steingríms á þessum tímamótum. Læt því fylgja með nokkrar tilvitnanir um AGS en þó sérstaklega Icesave.
Krafa AGS fjárkúgun
Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirfram skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG í samtali við Mbl.is 22. október 2008.
Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð
Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabaka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB.
Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009.
Hægt af afstýra stórslysi
Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.
Steingrímur J. Sigfússon í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009 um Icesave-málið.
Ég treysti Svavari Gestssyni
Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi og hans fólk glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur ...
Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is í mars 2009 aðspurður um stöðuna í Icesave-viðræðunum við Breta og Hollendinga
Ekki verið að ganga frá Icesave-samkomulagi
Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni 3. júní 2009 eða tveimur dögum áður en Icesace-samningar voru undirritaðir
Lilja rifjar upp orð Steingríms um AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook