Árni Þór lifir í pólitískum draumaheimi
Mánudagur, 20. desember 2010
Rétt liðlega 37% kjósenda styðja ríkisstjórnarflokkana. Fylgi beggja flokkanna hrapar í könnun MMR sem birt var í Fréttablaðinu á laugardag. Vinstri grænir fengju 16,4% atkvæða og tíu þingmenn ef gengið yrði til kosninga nú en í apríl mældist stuðningurinn 27,7%. Flokkurinn hefur því misst yfir 11%-stig á átta mánuðum. Á sama tíma sækir Sjálfstæðisflokkurinn í sig veðrið.
Þingmenn Vinstri grænna skynja þetta fylgishrap ágætlega og eru órólegir - ekki síst þingmenn órólegu deildarinnar. Að einhverju leyti verður að horfa á hjásetu þrímenninganna við afgreiðslu fjárlaga út frá þessum staðreyndum. Þeir átta sig á að fimm núverandi þingmenn flokksins muni ekki ná kjöri miðað við könnun MMR.
En Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður Vinstri grænna lifir í einhverjum draumaheimi stjórnamálanna. Í umræðum á Stöð 2 í gærkvöldi (sunnudag) sagði hann um stöðu Steingríms J. Sigfússonar flokksformanns:
"Það hefur komið fram í skoðanakönnun um langt skeið að hann nýtur stuðnings þjóðarinnar og reyndar líka kjósenda Vinstri grænna þegar að það er brotið upp."
Hvernig Árni Þór fær þetta út með hliðsjón af staðreyndum er ofar skilningi flestra.
Samráð um hjásetu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook