Jóhanna félagsmálaráðherra: Er óbundin af fjárlagafrumvarpi

johanna-teikning2.jpg

Á þeim tæpu tveimur árum sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið í stóli forsætisráðherra hefur ímynd hennar gjörbreyst. Heilög Jóhanna, eins og Jón Baldvin kallaði hana, nýtur ekki lengur þeirrar virðingar sem hún hafði í hugum margra. Þeir sem standa höllum fæti líta ekki lengur til hennar sem sérstakan talsmann. Jafnvel helstu stuðningsmenn Jóhönnu Sigurðardóttur átta sig á gjörbreyttri stöðu hennar og tala um nauðsyn þess að nýr maður komi í brúnna. 

Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddsson, - svokallaðri Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Í september 1993 gekk hún út af ríkisstjórnarfundi þegar verið var að afgreiða fjárlagafrumvarpið og lýsti því yfir að hún væri óbundin. Vert er að rifja þetta upp í tilefni af hjásetu þriggja þingmanna Vinstri grænna við afgreiðslu fjárlaga. 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er skorinorður palladómur um Jóhönnu Sigurðardóttur en þar segir:

"Í öllum þeim ríkisstjórnum sem Jóhanna Sigurðardóttir sat undir forystu annarra varð vandræðagangur tengdur henni við afgreiðslu sérhverra fjárlaga. Hún hafði aldrei neinn minnsta áhuga á málum annarra ráðherra eða ríkisstjórnarinnar sem heildar. Hún einblíndi undantekningarlaust á eigin mál og þá nánast aðeins á hvað kæmi í hlut „hennar ráðuneytis“ við deilingu sameiginlegra framlaga. Ef sérfræðingar myndu skoða feril hennar á þingi á meðan hún sat sem almennur ráðherra í ríkisstjórn myndu þeir sjá að hún tók aldrei undir eitt hornið með öðrum ráðherrum, hvorki í eigin flokki né annarra stjórnarflokka. Það skipti engu máli hversu þungum árásum einstakir samráðherrar hennar sátu undir eða ríkisstjórnin í heild, ef hennar mál voru ekki til umræðu lyfti hún ekki litla fingri til stuðnings félögum sínum."

Og síðar segir:

"Hótanir um brotthlaup frá ríkisstjórnarborði og úrsögn úr flokki lágu jafnan í loftinu á meðan á þessari ömurlegu og árvissu kúgun á ríkisfé stóð."

Óhætt er að halda því fram að hér heldur Davíð Oddsson um pennan en eins og Björn Bjarnason segir í pistli á heimasíðu sinni hefur Davíð ekki sagt mikið um samskiptin við Jóhönnu:

"Við sem sátum með þeim á þingi í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar komumst ekki hjá því að fylgjast með stöðugri viðleitni til að „hafa Jóhönnu góða“. Davíð gegndi hlutverki sáttasemjara innan Alþýðuflokksins. Hann sat yfir Jóhönnu milli ríkisstjórnarfunda til að róa hana og vinda ofan af tortryggni hennar í garð Jónanna."

Jónarnir, sem Björn vísar til eru Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, sem síðast var formaður Fjármálaeftirlitsins en var ráðherra í Viðeyjarstjórninni áður en hann fór í Seðlabankann.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur ekki verið í hópi aðdáenda Davíðs Oddssonar eftir að sá síðarnefndi ákvað að láta þann fyrrnefnda og gamla Alþýðuflokkinn róa, eftir fjögurra ára stjórnarsamstarf. Og sjaldan er Jón Baldvin tilbúinn til að taka undir með Davíð. En hann er sammála lýsingunni á Jóhönnu sem sett var fram í Reykjavíkurbréfinu. Í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi á Bylgjunni  að morgni sunnudags. Þar sagði Jón Baldvin meðal annars:

"Það heyrði til haustverkanna að sitja yfir Jóhönnu og fá hana til að vera með. Það var ekki hægt, hún var ekki til viðtals. Jóhanna var þá í því hlutverki sem Lilja Mósesdóttir er í núna og neitaði að taka þátt í niðurskurði á sínum málaflokki."  [Hér er stuðst við frásögn Pressunar]

Meðfylgjandi teikning eftir Sigmund skýrir þetta jafnvel enn betur en orð þeirra Davíð og Jóns Baldvins. Gagnrýni Jóhönnu á Lilju Mósesdóttur, sem sat hjá þegar greidd voru atkvæði um fjárlagafrumvarpið, eru því hjáróma og ótrúverðug. Flestir aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gætu haft uppi svipaða gagnrýni á Lilju, Atla Gíslason og Ásmund Einar Daðason, fyrir hjásetuna, en ekki Jóhanna Sigurðardóttir. Fortíð hennar  leyfir henni ekki slíkt. En það skiptir Jóhönnu engu.

Eins og áður segir gekk Jóhanna út af ríkisstjórnarfundi vegna ósættis um fjárlagafrumvarpið. Vert er að birta frétta Morgunblaðsins laugardaginn 11. september 1993:fretta-johanna.jpg

FJÁRLAGAFRUMVARPIÐ var afgreitt á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segist vera óbundin af þeirri samþykkt en hún gekk af fundinum áður en frumvarpið var tekið til afgreiðslu. Ástæðan er mikill ágreiningur um húsaleigubætur og fjármögnun þeirra og einnig segist Jóhanna hafa mikla fyrirvara um ýmsa þætti í heilbrigðis- og menntamálum, þar sem ekki hafi fengist niðurstaða sem hún sætti sig við. Aðspurð hvort hún væri á leið út úr ríkisstjórninni segist Jóhanna ekki hafa ein svarið við því heldur yrðu forsætisráðherra og hugsanlega einnig formaður Alþýðuflokksins að taka afstöðu til þeirra fyrirvara sem hún hefði.

Jóhanna segist hafa gert kröfu um að tekin yrði stefnumarkandi ákvörðun um að koma á húsaleigubótum og að frumvarp þess efnis yrði lagt fram á Alþingi í haust, þótt hún hefði fallist á að það tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1995. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar í gær er hins vegar gert ráð fyrir að frumvarpið verði ekki lagt fram fyrr en á þinginu 1994-95 og að viðbótarútgjöld vegna húsaleigubótanna verði tekið úr félagslega íbúðakerfinu, sem þýddi fækkun um allt að 200 félagslegar leiguíbúðir, að sögn Jóhönnu. Segist hún aldrei geta fallist á það.

Segist hún hafa gert tillögu um að 300 millj. kr. viðbótarútgjöld sem talið er að húsleigubæturnar kosti ríkissjóð á ári myndu rúmast innan þeirra heildarútgjalda sem nú væri varið í húsnæðiskostnað úr ríkissjóði og var sú tillaga rædd á fundi með forsætisráðherra á fimmtudag. Fjármálaráðherra hefði hins vegar komið með allt aðra tillögu á ríkisstjórnarfundinn í gær sem hefði verið samþykkt eftir að hún yfirgaf fundinn.

Hús fyrir Hæstarétt

"Að ráðast þarna alfarið á félagslega íbúðakerfið er algjörlega óásættanlegt fyrir mig og ég trúi því ekki að þingflokkur Alþýðuflokksins ljái því lið. Formaður Alþýðuflokksins heldur því þó fram að þingflokkurinn styðji það, en það verður þá bara að koma í ljós," sagði Jóhanna. "Mér er gert að fjármagna þetta innan húsnæðiskerfisins, en á sama tíma, og við þessar aðstæður, er verið að koma upp húsnæði fyrir Hæstarétt, sem kostar allt að 500 milljónir króna og ekki er dómsmálaráðherra gert að fjármagna það með þeim fjármunum sem ráðuneyti hans hefur yfir að ráða heldur eru það aukaútgjöld úr ríkissjóði," sagði Jóhanna.

"Það vita allir mína afstöðu til húsaleigubótanna og ýmissa þátta varðandi heilbrigðis- og menntamálin og ef þau atriði verða eins og þau líta út núna mun ég ekki telja mig bundna af fjárlögum og þá hlýtur málið að vera í höndum forsætisráðherra og hugsanlega formanns Alþýðuflokksins," sagði hún.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband