Steingrímur hræðist þjóðina

Steingrímur J. Sigfússon er óvenju hógvær í viðtalinu við mbl.is sem sýnir kannski vel að sagan er honum ekki hliðholl. En það er algjörlega rangt hjá fjármálaráðherra að halda því fram að ákvörðun um að vísa Icesave-samningunum í þjóðaratkvæði sé í höndum annarra. Ráðherrann veit betur en reynir að leiða umræðuna á villigötur. Slíkt er hvorki drengilegt né skynsamlegt pólitískt fyrir mann sem vildi knýja í gegn samninga um þjóðargjaldþrot.

Auðvitað er það í höndum alþingismanna að ganga svo frá málum að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja samninga um Icesave. Því verður ekki trúað að meirihluti sé fyrir samningum á þingi ef ekki er ákvæði um að þeir öðlist ekki gildi án þess að meirihluti kjósenda samþykki þá.

En Steingrímur vill ekki þjóðaratkvæði, ekki frekar en um gömlu samningana sem var hafnað af 98% kjósenda. Hvorki hann né Jóhanna Sigurðardóttir, sem í orði segist berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, tóku þátt í kosningunum í mars síðastliðnum. 

Laugardaginn 6. mars hafði Morgunblaðið það eftir Steingrími að hann hefði velt gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar talsvert fyrir sér:

"Ég sé takmarkaðan tilgang í því að taka þátt í þessari kosningu. Til þess að svona kosning þjóni einhverjum tilgangi þarf hún að mínu mati að uppfylla tvennt, það þurfa að vera í boði einhverjir skýrir valkostir og það þarf að vera í mögulegri útkomu kosningarinnar einhver lausn á einhverju viðfangsefni. Hvorugt er í boði í þessu tilviki eins og nú er málum háttað."

Svo segir mér hugur að Steingrímur J. Sigfússon vilji helst að ofangreind orð hefðu aldrei verið sögð, líkt og hann hlýtur að iðrast þess að hafa staðið að Svavars-samningunum svokölluðu, þó hann viðurkenni það aldrei. Verst er þó að ráðherrann haldi áfram að leiða umræðuna á villigötur. 


mbl.is Vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband