Nú verða menn að standa í lappirnar
Sunnudagur, 5. desember 2010
Ef það er rétt að enn einu sinni sé búið að semja um Icesave-skuldir, er nauðsynlegt að stjórnarandstaðan standi í lappirnar. Skilaboð kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni í febrúar voru skýr; þeir vilja ekki að skuldir einkafyrirtækja séu þjóðnýttar og lagðar á herðar skattgreiðenda.
Það er rétt sem John Dizard segir í grein sinni í FT, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á því að Icesave-deilan verði leyst fyrir dómstólum. Og af hverju halda menn að það sé?
Stefna íslenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni á að vera og getur aldrei verið annað en einföld.
- Íslendingar standa við allar skuldbindingar sínar samkvæmt lögum.
- Engin lagaleg skylda er á íslenskum skattgreiðendum að axla skuldir Landsbankans vegna Icesave-reikninga. Ágreiningur við bresk og hollensk stjórnvöld er réttarágreiningur. Úr honum er leyst með úrlausn hlutlausra dómstóla. Slík aðferð tilheyrir meginreglum hjá öllum ríkjum Vestur-Evrópu. Ísland, líkt og aðrar frjálsar þjóðir, býr við reglur réttarríkisins.
Líklegt er að enn og aftur verði snúið upp á hendur í þingsölum til að þvinga nýjum Icesave-samningi í gegn. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra virðist tilbúinn til að ganga ótrúlega langt til að koma þessum klafa á íslenska skattgreiðendur. Til þess hefur hann óskoraðan stuðning Jóhönnu Sigurðardóttur.
Því verður ekki trúað að þingmenn stjórnarandstöðunnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, taki ekki til varna fyrir landsmenn.
Icesave samkomulag áhugavert fordæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook