Allt íhaldinu að kenna!!

 Auðvitað var allt íhaldinu að kenna. Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgðina á hruninu og Samfylkingin var saklaus dreginn inn í ríkisstjórn. Þannig má í stuttu máli draga saman niðurstöður svokallaðrar umbótanefndar Samfylkingarinnar. Mér er til efs að nokkrar umbætur verði innan Samfylkingarinnar a.m.k. ekki með umbótanefndinni.

Skýrsla umbótanefndarinnar minnir svolítið á strákinn sem sparkaði boltanum í rúðuna sem brotnaði: Þetta var Nonna að kenna, hann fékk mig til að koma í fótbolta. 

Ekki verður betur séð en að skýrsla umbótanefndarinnar sé leitin að afsökuninni til þess að forðast að axla nokkra raunverulega ábyrgð eða horfast í augu við staðreyndir. Ráðherrum Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum er lýst sem saklausum og hrekklausum einstaklingum: 

"Þeir beygðu sig undir þær venjur sem skapast höfðu á langri valdatíð Sjálfstæðisflokksins og leyfðu honum því að alda þeirri forystu sem hann hafði haft í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þetta dró úr möguleikum Samfylkingarráðherranna til að móta eigin sýn á stöðu mála. Samfylkingin sá þannig vanda bankanna í sama ljósi og samstarfsflokkurinn og var þrátt fyrir mikla sérfræðiráðgjöf og undirbúningsvinnu ekki fær um að greina á milli innri vanda og ímyndarvanda. Upplýsingar um raunverulega stöðu mála, þar á meðal viðvaranir sem komu fram með ýmsum hætti frá áramótum 2008, sem og gagnrýni erlendra sérfræðinga á bankakerfið féllu í grýttan jarðveg. Samfylkingin
nýtti ekki öflugustu sérfræðingana til að greina vandann, né var upplýsingum deilt með þeim hætti að þær nýttust til fulls eða að af þeim væri hægt að draga réttar ályktanir."

Niðurstaða umbótanefndarinnar er sú að Samfylkingin hafi verið veikari aðilinn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn:

"Þetta varð til þess að stefnumál flokksins voru ekki sett fram af nægilegri festu, starfshættir og forgangsröðun samstarfsflokksins ríktu áfram með sama hætti og fyrr og Samfylkingin sætti sig við hún gæti aðeins búist við því að með lagni mætti þoka Sjálfstæðisflokknum inn á „rétta braut“ þegar fram í sækti. Andvaraleysi einkenndi því afstöðu Samfylkingarinnar framan af og þegar líða tók á árið 2008, samskonar afneitun og hjá samstarfsflokknum."

Samfylkingin og sérstaklega ráðherrar hennar voru því undir slæmum áhrifum frá tuddunum í Sjálfstæðisflokknum. Í sakleysi sínu "lenti" Samfylkingin í slæmum félagsskap, en það var ekki henni að kenna. Tuddarnir leyfðu Samfylkingunni aldrei að ráða og því fór sem fór. Ef Samfylkingin hefði hins vegar fengið að ráða för væri allt miklu betra.
mbl.is Fylgdu ekki eigin stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband