Hið brenglaða gildismat
Föstudagur, 3. desember 2010
Gildismatið er eitthvað brenglað hjá hinni norrænu velferðarstjórn. Nú á að hætta að veita langveikum börnum heimahjúkrun og spara með því 50 milljónir króna eða svo. Þannig forgangsraðar velferðarstjórnin sem hefur skipað yfir 250 nefndir með tilheyrandi kostnaði. Ekki er talin ástæða til að hætta að úthluta styrkjum úr opinberum sjóðum. Styrkþegar ríkisins eru í skjóli en langveik börn og fjölskyldur þeirra ekki. Í gær var 35 milljónum króna úthlutað úr Þjóðhátíðarsjóði meðal annars til Ríkisútvarpsins.
Á sama tíma og fjölskyldulífi þeirra sem verst standa er stefnt í tvísýnu og raunar kollvarpað, heldur utanríkisráðuneytið áfram sinni starfsemi líkt og ekkert hafi gerst. Hundruðum milljóna er varið í umsókn um aðild að Evrópusambandinu og hundruðum milljónum er eytt í að halda úti sendiráðum og sendinefndum út um allan heim.
Ef við erum orðin svo aum að geta ekki veitt langveikum börnum hjálp, getum við ekki verið svo forhert að halda úti sendiráði á Indlandi fyrir 88 milljónir á komandi ári. Væri ekki einnig rétt að lækka framlög til fiskgæðaverkefnis í Úganda sem kostar 120 milljónir og verja þó ekki væri nema helming þeirrar fjárhæðar til að standa vörð um íslenskar fjölskyldur sem berjast hetjulegri baráttu við erfiða sjúkdóma?
Það er eitthvað öfugsnúið við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ættu að vera fremstir eru settir aftast en góðærisverkefnin fá sitt.
Ég hef áður lagt til að skorið verði niður í utanríkisþjónustunni og a.m.k. er hægt að spara þar 766 milljónir króna á komandi ári. Þetta er hægt með því að loka nokkrum sendiráðum og aðalræðisskrifstofum:
- Á Indlandi og Japan. Sparnaður 147,2 milljónir króna.
- Í Kanada, jafnt sendiráð sem aðalræðisskrifstofa: Sparnaður 89,9 milljónir króna
- Í Finnlandi og í Svíþjóð: Sparnaður 131,7 milljónir króna.
- Í Frakklandi, Austurríki og Bretlandi. Sparnaður 397,4 milljónir króna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook