Elton John í Kasakstan og á Íslandi
Miðvikudagur, 1. desember 2010
Ég á ekki von á því að bandarískir sendiráðsmenn á Íslandi hafi sent minnisblað til yfirboðara sinna um fimmtugsafmæli Ólafs Ólafssonar, sem oftast er kenndur við Samskip. Samkvæmt frétt á RÚV voru Bandaríkjamenn yfir sig hneykslaðir vegna veisluhalda ráðamanna í Kasakstan þar sem Elton John var fenginn til að skemmta. Sama ár mætti Elton í afmælisveislu Ólafs en þá voru íslenskir auðmenn loðnari um lófana en flestir og Tom Jones söng í áramótaveislu efnaðra Íslendinga í London.
Frétt RÚV hljóðar svona:
"Nursultan Nazarbaev, forseti Kasakstans, greiddi söngvaranum Elton John meira en hundrað og áttatíu milljónir íslenskra króna fyrir að koma fram í afmælisveislu tengdasonar síns. Þetta kemur fram í leynilegum skjölum bandarísku utanríkisþjónustunnar sem vefsíðan Wikileaks hefur nú birt.
Þar segir að nautnalíf ráðamanna í Kasakstan sé á allt öðrum mælikvarða en fólk eigi að venjast og því til sönnunar fylgja skrautlegar lýsingar á ótæpilegri drykkju og eyðslusemi þeirra. Munaðurinn er sagður svo yfirgengilegur að forsetann hafi ekki munað um að fá sjálfan Elton John til Kasakstans til þess eins að syngja í einni afmælisveislu. Það var árið tvö þúsund og sjö, sama ár og Sir Elton kom til Reykjavíkur til að syngja í afmælisveislu Ólafs Ólafssonar, athafnamanns. Á þeim tíma var talað um að söngvarinn hefði tekið eina milljón dollara fyrir. Það er nokkru minna en hann er sagður hafa fengið fyrir að veita sömu þjónustu í Kasakstan."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook