160 atkvæði á frambjóðenda
Mánudagur, 29. nóvember 2010
Engu skiptir hvaða mælikvarði er notaður. Kjörsókn á laugardaginn var skelfileg. Rétt um 36% kjósenda lögðu leið sína á kjörstað til að velja fulltrúa á stjórnlagaþing. Samkvæmt nýjustu tölum kusu 83.576 af 227.656 kjósendum. Það þýðir að rúmlega 144 þúsund sátu heima.
Ég hef verið á móti því að boða til stjórnlagaþings en ætla ekki að rekja þær ástæður hér. Hitt er svo annað að ég hef það sem reglu að taka þátt í kosningum og það gerði ég á laugardaginn og kaus tíu frambjóðendur.
Nú er byrjað að leita skýringa á lélegri þátttöku. Ég sé að sumir frambjóðendur og aðdáendur stjórnlagaþingsins kenna fjölmiðlum og jafnvel Háskóla Íslands um að hafa brugðist. Sjálfstæðisflokkurinn fær einnig skammir. En af hverju líta þeir frambjóðendur sem skammast út fjölmiðla eða aðra aðila, ekki í eigin barm. Alls buðu 522 sig fram til setu á stjórnlagaþingi. Að meðaltali "skilaði" hver frambjóðandi 160 kjósendum á kjörstað. Varla telst það góður árangur í kosningum.Úrslit kynnt annað kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook