Furðulegar hugmyndir Árna Páls

Hæstiréttur komst að þeirri eðlilegu niðurstöðu í dómi, sem kveðinn var upp síðastliðinn fimmtudag, að ekki sé hægt að ganga gegn stjórnarskrá – ekki einu sinni Alþingi geti staðið að lagasetningu sem gengur í berhögg við ákvæði stjórnarskrár. Árni Páll Árnason, viðskipta- og efnahagsráðherra átti erfitt um tal í viðtali við Ríkissjónvarpið. Viðbrögð ráðherrans eru ekki aðeins fráleit heldur vekja þau alvarlegar spurningar um hugmyndir ráðherrans um stjórnarskrá lýðveldisins.

Dómur Hæstaréttar snérist um ábyrgðarmenn. Á síðasta ári fékk kona greiðsluaðlögun og voru allar samningskröfur gefnar eftir. Sparisjóður Vestmannaeyja taldi hins vegar að ábyrgð ábyrgðarmannanna væri ekki fallin niður og höfðaði mál á hendur þeim þegar þeir neituðu að greiða. Hæstiréttur segir að kröfuréttur sparisjóðsins á hendur ábyrgðarmönnunum njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og þau réttindi verði ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf.

Í dómsorði Hæstaréttar segir meðal annars:

Með 3. mgr. 9. gr.  laga nr. 32/2009, sbr. 12. gr. laganna, var kveðið á um brottfall ábyrgða, sem til hafði verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, án tillits til þess hver greiðslugeta ábyrgðarmanna væri. Verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða hans að kröfuréttur stefnda á hendur áfrýjendum sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum skuldabréfsins njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár og að þau réttindi verði ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf á þann hátt sem að framan var lýst. 

Stjórnarskráin er skýr þegar kemur að eignarréttinum en í 72. grein segir:  

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.

Árni Páll Árnason er lögfræðingur að mennt. Í stað þess að bregðast við dómi Hæstaréttar af hógværð og lýsa því yfir að hann muni beita sér fyrir að lögum verði breytt svo þau gangi ekki gegn stjórnarskrá, hnýtir hann í Hæstarétt. Orðrétt sagði Árni Páll í viðtali við Ríkissjónvarpið:

Þessi dómur veldur vonbrigðum. Það er ljóst á honum að Hæstiréttur metur meira bókstafsskilning á eignarréttarvernd kröfuhafa en vernd einkalífs og heimilis eignalauss fólks.

Síðan bætti ráðherrann, líkt og hann sæi örlítið að sér, að nú skipti miklu að menn meti dóminn af yfirvegun.

Er nema furða að margir landsmenn telji rétt að endurskoða stjórnarskránna þar sem ekki sé farið eftir henni? Viðhorf Árna Páls Árnasonar ýta undir viðhorf af þessu tagi. Virðing ráðamanna fyrir stjórnarskrárvörðum réttindum er ekki mikil. En stjórnarskráin stendur ágætlega fyrir sínu ef Hæstiréttur heldur áfram vakandi varðstöðu sinni og ef viðhorfum viðskipta- og efnahagsráðherra, er hafnað af öllum almenningi.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband