Er gagnrýni þremenninganna pólitískur hávaði sem er truflandi til lengdar?

Ef Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, trúa því að gagnrýni þeirra á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sé rétt og sanngjörn, hljóta þau að lýsa yfir andstöðu við sitjandi ríkisstjórn og styðja vantraust. Annars verða þeir hvorki trúverðug í málflutningi né samkvæm sjálfum sér. Öll gagnrýnin verður innantómt hjal sem er aðeins pólitískur hávaði sem getur verið pirrandi fyrir alla til lengdar. 

Þegar yfirlýsing þremenninganna, vegna greinargerðar Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi þingflokksformanns, er lesin er óskiljanlegt hvernig þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að verja sitjandi ríkisstjórn falli, ef tillaga um vantraust kæmi fram. Svo djúpstæður er ágreiningurinn um efnahagsstefnuna að þremenningarnir geta aldrei varið ríkisstjórn sem fylgir henni. Þremenningarnir eru harðorðir og tala um hina "svokölluðu" velferðarstjórn og gefa þannig lítið fyrir yfirlýsingar Jóhönnur Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um norræna velferðarstjórn. 

Þremenningarnir eru sannfærðir um að fjárlög þessa árs muni leiða til enn meira atvinnuleysis og þá ekki síst meðal kvenna. Þeir benda á að fjölgun atvinnulausra auki ójöfnuð í samfélaginu og því gangi fjárlögin gegn "grunngildum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um félagslegan jöfnuð og kvenfrelsi". Varla geta þingmenn VG, sem telja að verið sé að ganga gegn grunngildum flokksins, staðið að því að verja ríkisstjórn sem þannig vinnur. 

Einkunnargjöf þremenninganna yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, jafngildir falleinkunn í hvaða meðalmenntastofnun sem er. 

Verstu spár um atvinnuleysi hafa gengið eftir, að teknu tilliti til landsflótta og lægri atvinnuþátttöku. Samdráttur efnahagslífsins er meiri og minnkandi verðbólga bendir til þess að hagkerfið stefni í hraðskreiða niðursveiflu. Lilja, Atli og Ásmundur Einar virðast sannfærð um að óbreytt stefna sé feigðarflan (og því er enn óskiljanlegra að þau lofi að verja ríkisstjórnina falli) en í yfirlýsingunni segir meðal annars:

"Í yfirvofandi skuldakreppu verður ekki afstýrt nema að ríkisstjórnin segi þegar í stað upp samningum við AGS. Þegar enn átti eftir að draga á um helming lánsfjárupphæðarinnar í lok árs 2010 var gjaldeyrisvarasjóðurinn kominn í þá stærð sem að var stefnt. Ríkisstjórnin hefur með samningum undirgengist kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS sem hefur falist í ávaxtastefnu strax í kjölfar bankahrunsins og síðan kreppudýpkandi fjárlögum á næsta ári. Eina leiðin til að losa um gjaldeyrishöftin er að beita skattlagningu á útstreymi fjármagns yfir ákveðinni upphæð. Þannig væri hægt að afnema höftin, afla ríkissjóði tekna og tryggja síðan frjálst flæði fjármagns með þeirri mikilvægu undantekningu að krónan yrði varin sérstaklega gegn áhlaupi spákaupmanna. Gengishrun krónunnar í kjölfar bankahrunsins ætti að sannfæra umheiminn um nauðsyn þess að örsmátt hagkerfi eins og það íslenska þurfi tæki til að verjast áhlaupi alþjóðlegra fjármagnsafla."


mbl.is Bregðast við málflutningi Árna Þórs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband