Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

"Ég hugsa, þess vegna er ég"

Svar Atla Gíslasonar við spurningu blaðamanns er merkileg. Svarið er hnitmiðað og segir meira en mörg orð. "Ég hugsa, þess vegna er ég," segir Atli og kemst að því að hann sé til sem stjórnmálamaður með sjálfstæða hugsun en ekki bundinn á klafa flokksforystunnar.

Lilja Mósesdóttir hefur þegar stigið fyrsta skrefið í að segja skilið við þingflokk Vinstri grænna eða eins og hún segir í samtali við Fréttablaðið:

"Ef það er almennt skoðun stjórnarliða að við séum steinar í götu þeirra sé ég ekki annað en að við þurfum að bjóðast til að yfirgefa stjórnarliðið svo það geti haldið störfum sínum áfram."

Varla er hægt að skilja orð Atla öðruvísi en sem skilaboð um hans eigið sjálfstæði og frjálsa hugsun gagnvart þingflokknum. Ásmundur Einar Daðason, sem orðið hefur fyrir miklu aðkasti undanfarna daga, segir lítið en Ögmundur Jónasson tekur upp hanskann fyrir hann:

"Ásmundi Einari spái ég bjartri framtíð í íslenskum stjórnmálum. Hvers vegna? Jú vegna þess að hann er fylginn sér, heiðarlegur, skeleggur og drengur góður. Ég er oftast sammála honum."

Erfitt er að sjá að hægt verði að bera klæði á vopnin þegar þingflokkur Vinstri grænna kemur saman 5. janúar næstkomandi. 


mbl.is Ummæli Lilju eðlileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að línur skýrist

Ég vona að Guðbirni og öðrum þeim sem standa að stofnun þessa flokks gangi allt í haginn. Fyrirfram verður það hins vegar dregið í efa að mikil eftirspurn sé meðal miðju- og hægrimanna á Íslandi eftir flokki sem kennir sig við eitthvað norrænt - ekki eftir að hafa fengið að kynnast norrænni velferð í tæp tvö ár.

Guðbjörn starfaði lengi innan Sjálfstæðisflokksins en var mjög ósáttur við mikinn meirihluta landsfundarfulltrúa vegna stefnunnar í Evrópumálum. Á bloggsíðu sinni 27. júní síðastliðinn tilkynnti hann úrsögn sína og neitaði því að hún væri eingöngu vegna óánægju með stefnu flokksins varðandi aðild að Evrópusambandinu. Helst var á honum að skilja að ástæðuna mætti rekja til Davíðs Oddssonar, sem hætti í stjórnmálum fyrir liðlega fimm árum. En Guðbjörn boðaði þegar stofnun nýs stjórnmálaflokks:

"Það er vinna framundan við að skipuleggja og stofna nýjan heiðarlegan og ráðvandan miðjuflokk með léttri hægri sveiflu. Hér verður um að ræða flokk, þar sem venjulegt fólk ræður ferðinni og þar sem hagsmunir Íslendinga og íslenskra fyrirtækja verða settir í fyrsta sæti. Við munum ekki gera mun á fyrirtækjum eða mönnum og reyna að hygla sérstaklega að bændum eða útgerðarmönnum – þó þeir eigi allt gott skilið. Miðju- og hægrimenn gera sér grein fyrir að við verðum að framleiða og vinna okkur út úr vandanum og að öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar, menntunar og menningar. Við munum ekki aðeins hafa í huga og styðjast við ákvæði stjórnsýslulaga, stjórnarskrár og annarra laga þegar okkur hentar – líkt og margir ráðherrar virðast gera – heldur fylgja lagafyrirmælum út í ystu æsar. Ólíkt gömlu flokkunum, sem allir voru stofnaðir til að verja hagsmuni einhverra ákveðinna hópa í þjóðfélaginu, mun þessi flokkur einmitt að forðast sérhagsmunagæslu. Hagsmunir borgaranna og fyrirtækjanna í landinu, velferð þeirra og frelsi verður í forgrunni. Það er ekki ekki nóg að tala um frelsi, ábyrgð og umhyggju, heldur verður maður að lifa í samræmi við þessi orð og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert undanfarin 10 ár og engar líkur á að hann geri það á næstu árum eða áratugum."

17. nóvember skrifar Guðbjörn á bloggsíðu sína:

"Einsýnt er að nýr frjálslyndur og ESB hlynntur flokkur á miðjunni mun fæðast og gera Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki lífið leitt og taka til sín mikið fylgi á miðjunni."

Það er ágætt ef til verður borgaralegur flokkur undir forystu Guðbjörns eða einhvers félaga hans sem leggur áherslu á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Slíkt skerpir aðeins línurnar í stjórnmálunum - línur sem oft hafa ekki verið skýrar.


mbl.is Segir viðbrögð góð við nýjum flokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Vona að þið fáið að njóta hátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og vina.

Hér syngur ein magnaðasta söngkona allra tíma, Mahalia Jackson, eitt af fallegri jólalögunum.


Sendiherrum fjölgar og lítt sparað í utanríkisþjónustunni

Ekki er hægt að skilja þessa frétt öðruvísi en að sendiherrum verði fjölgað um tvo á komandi ári. Ekki bendir það til mikillar íhaldssemi í utanríkisráðuneytinu í meðferð fjármuna almennings. Ég hef margoft bent á nauðsyn þess að skera upp utanríkisþjónustuna og spara stórkostlega fjármuni. Það er úrelt hugsun að halda úti sendiráðum um allan heim.

Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur, segir á vef utanríkisráðuneytisins. Þannig starfrækja íslenskir skattgreiðendur 21 sendiskrifstofu í 17 löndum. Auk þessa er Þróunarsamvinnustofnun með fimm sendiskrifstofur í jafnmörgum löndum. 

Ég benti á það í pistli á T24 í október nokkru eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram að við Íslendingar ætlum að halda úti utanríkisþjónustu sem mun kosta um 11 þúsund milljónir króna. Þar af munu sendiráð og fastanefndir kosta 2.675 milljónir króna. "Um það verður ekki deilt að fyrir sjálfstæða þjóð er mikilvægt að halda uppi samskiptum við önnur ríki meðal annars með því að standa undir kostnaði við sendiráð. En útþensla íslensku utanríkisþjónustunnar er orðin þannig að almennt samkomulag hlýtur að nást um að skera hana upp og endurhugsa frá grunni áður en lagt er í að kollvarpa heilbrigðiskerfinu um allt land."

Ég lagði til að eftirfarandi sendiráðum og aðalræðisskrifstofum yrði lokað:

  • Á Indlandi og Japan. Sparnaður 147,2 milljónir króna.
  • Í Kanada, jafnt sendiráð sem aðalræðisskrifstofa: Sparnaður 89,9 milljónir króna
  • Í Finnlandi og í Svíþjóð: Sparnaður 131,7 milljónir króna.
  • Í Frakklandi, Austurríki og Bretlandi. Sparnaður 397,4 milljónir króna.
Samtals gæti sparnaðurinn orðið 766 milljónir króna.
mbl.is Sendiherraskipti í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Valur er vanur dylgjum

Björn Valur Gíslason, sem er sérstakur sendiherra Steingríms J. Sigfússonar, er vanur því að fara fram með dylgjur og aðdróttanir í garð pólitískra andstæðinga. Það kemur ekkert á óvart lengur í þeim efnum.

Á fundi Alþingis 10. júní síðastliðinn gekk Björn Valur fram af öllum sómakærum mönnum sem hlustuðu á umræðu á Alþingi. Þá réðist Björn Valur með ótrúlegum og svívirðilegum hætti að Sigurði Kára Kristjánssyni. Mér finnst rétt að rifja þá umræðu upp:

Björn Valur Gíslason:

"Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs krafðist minni hlutinn á Alþingi undir forustu Sjálfstæðisflokksins þess að fá hina mjög svo virtu lögfræðistofu Mishcon de Reya til liðs við sig vegna Icesave-málsins sem þá var til umræðu. Alþingi varð við óskum stjórnarandstöðunnar og sagðist greiða lögfræðistofunni fyrir viðvikið enda var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar að umrædd lögfræðistofa væri öðrum fremri á þessu sviði og til þess bærari en aðrar að varpa nýju ljósi á málið. Annað kom í ljós. (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) Pappírarnir streymdu reyndar úr tölvum stofunnar hingað til lands í hundraðavís (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) en reyndust við frekari skoðun einskis virði og ekki til að varpa nýju ljósi á málið að nokkru leyti. Látum það (Gripið fram í.) liggja á milli hluta, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.

Fyrir þessa gagnslausu vinnu greiddi Alþingi 22 millj. kr. (Gripið fram í.) eftir að hafa náð að kría út afslátt hjá lögfræðistofunni. Það var hins vegar greinilegt á þessum tíma að umrædd lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hafði náin tengsl hingað til lands, til stjórnarandstöðunnar, og nokkuð ljóst hvert þau tengsl lágu. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann — ég tek það fram að ég var ekki búinn að vara hv. þingmann við þessari spurningu og ætlast ekki til þess að hann svari hér og nú. (Gripið fram í.) Ég varpa þeirri spurningu til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessu sambandi: Hver, ef einhver, hafa tengsl hans við þessa lögfræðistofu verið? Átti hv. þingmaður einhver samskipti við lögfræðistofuna Mishcon de Reya á þeim tíma þegar hann var aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins eða meðan hann gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og hver voru þessi tengsl?

Síðast en ekki síst, í ljósi viðhorfa þingmannsins til styrkjamála, þeirrar umræðu sem hefur verið á þingi og þeirrar háu upphæðar sem Alþingi greiddi lögfræðistofunni fyrir enga vinnu: Þáði hv. þingmaður einhverjar greiðslur frá stofunni fyrir vinnu hans og (Gripið fram í.) og aðkomu að málinu? (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að þingmaðurinn svari þessari spurningu ef hann getur, (Forseti hringir.) annars láti hann það bíða."

Sigurður Kári Kristjánsson:

"Herra forseti. Ég ætla að svara hérna þessum makalausu yfirlýsingum og aðdróttunum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um meint tengsl mín við lögfræðistofuna Mishcon de Reya sem hæstv. ríkisstjórn réði til starfa fyrir sig. Hann lætur að því liggja að ég hafi síðar, vegna aðkomu þeirrar stofu að vinnu fyrir þingið, haft einhverja aðkomu að því máli og jafnvel þegið greiðslur frá lögmannsstofunni.

Það er algjörlega rangt. Þetta eru svívirðilegar ávirðingar sem hv. þingmaður kemur með á hendur mér. Ég hef engin tengsl við þessa stofu. Ég samdi ekki við hana um að hún ynni fyrir Alþingi. Það gerðu formaður fjárlaganefndar og skrifstofa Alþingis. Það gerði ég ekki og það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Ég skil ekki af hverju íslensk stjórnmál þurfa að vera komin niður (Forseti hringir.) á það plan sem hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) hefur dregið þau niður á. Það er honum (Forseti hringir.) og flokki hans til skammar að bera þessar sakir á mig eða (Forseti hringir.) aðra þingmenn hér og hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar." [Kliður í þingsal.]

Einar K. Guðfinnsson:

"Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið vegna þess að ég tel að hæstv. forseti hefði átt að víta hv. þm. Björn Val Gíslason. (Gripið fram í: Heyr.) Það er óþolandi að hv. þingmaður bregði sér hér í hlutverk rógberans og beri sakir á menn til þess eins að láta þá reyna að afneita þeim. Þetta er þekkt fyrirbæri en hefur aldrei notið mikillar virðingar.

Látum þá neita því, sögðu menn vestur í Bandaríkjunum, og höfðu skömm fyrir. Hv. þingmaður ætti að skammast sín. Hv. þingmaður hefur verið í þeirri stöðu sem varaformaður fjárlaganefndar að kalla eftir alls konar nefndarálitum og sérfræðiálitum sem greitt er fyrir. Engum dettur í hug að ætla að hann hafi haft af því fjárhagslega hagsmuni, en þetta var það sem hann sagði í raun og veru, hann fór niður á slíkt plan. (VigH: Rétt.) Ef hv. þingmaður er maður að meiri ætti hann að koma hér upp og biðjast afsökunar."

Hægt er að lesa eða hlusta á umræðuna á vef Alþingis. Umræðan var tvíþætt, annars vegar um störf þingsins og hins vegar um fundarstjórn.

 


mbl.is Biður Kristján Þór afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðsleg ormagryfja

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar leiðara á Evrópuvaktinni um samstarfið í ríkisstjórninni. Hann segir að fréttir Morgunblaðsins og mbl.is undanfarna daga gefa innsýn í samstarf flokkanna. Vert er að vekja athygli á skrifunum en Styrmir samstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sé í rúst. En þrátt fyrir það muni ríkisstjórnin sitja eins lengi og sætt er.

Styrmir skrifar meðal annars:

"Þetta þýðir að stjórnarsamstarfið er í rúst og fréttir Morgunblaðsins og mbl.is hafa veitt almenningi innsýn í ormagryfju, sem er með þeim ógeðslegri, sem sést hafa í íslenzkri pólitík á síðari tímum og hafa þær þó verið margar.

Þetta þýðir hins vegar ekki að ríkisstjórnin sé að fara frá. Hún mun sitja eins lengi og sætt er. En þetta þýðir hins vegar, gagnstætt því sem ætla mátti fyrir nokkrum vikum, að það eru minni líkur en meiri á því, að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið.

Það kann að vera styttra í kosningar en margir halda."


Hjörleifur hæðist að forystu VG

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstri grænna hæðist að forystu flokksins í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er hjáseta þremenninganna svokölluðu við afgreiðslu fjárlaga og viðbrögð flokksforystunnar. Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins hefur lítt haft sig í frammi undanfarna daga en þess í stað sent út varamenn af ýmsu toga eins og Hjörleifur gerir góðlátlegt grín að.

Hjörleifur segir meðal annars í grein sinni:

"Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar.

Öll áttu þau í varaliðinu það sammerkt að fordæma með sterkum orðum afstöðu þremenninganna og voru sammælt um að þeirra síðarnefndu biði það verkefni "að vinna sig út úr þeim vanda sem þau eru komin í og öðlast á ný traust og trúnað yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins" (Björn Valur). Varaformaður flokksins sagði: "Að sjálfsögðu er þetta alvarlegur núningur, þetta er hreinn ágreiningur" og upp úr áramótum komi í ljós hvort þingflokkurinn klofnar eða hvort takist að bera klæði á vopnin. Árni Þór sagði málflutning þremenninganna ósanngjarnan, rangan og ódrengilegan. "Þessir þingmenn verða sjálfir að svara því hvort þeir treysti sér til að vinna með okkur hinum... þau verða að leggja sig fram um að endurheimta það traust."

Hjörleifur segir að ljóst sé að réttur hafi verið settur yfir hinum "bersyndugu" en þeir geti notað jóladagana og búið "sig undir að feta svipugöngin inn í hin helgu vé þingflokksins, þar sem postulatalan 12 stendur vörð". Hæðnislega segist Hjörleifur vonast til að þar sé enginn Júdas. Síðan lýkur Hjörleifur grein sinni á eftirfarandi orðum:

"Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð."

Þannig heldur farsinn í þingflokki Vinstri grænna áfram. Árni Þór, sem er starfandi formaður þingflokksins, ræðir ekki við stóran hluta þingflokksins þar af tvo ráðherra. Steingrímur J. hefur dregið sig í hlé en sendir vara-þetta og vara-hitt til að láta svipuhöggin dynja á þeim sem ekki er rætt við.


Ögmundur setur ofaní við Árna Þór

Eldar halda áfram að brenna innan þingflokks Vinstri grænna - eða kannski er allt helfrosið. Nú hefur Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra séð sig knúinn til að leiðrétta og setja ofaní við Árna Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformann VG.

Árni Þór var í viðtali hjá Helga Seljan í Kastljósi í gærkvöldi (mánudag) og virtist taugaveiklaður. En þrátt fyrir það hafði Árni Þór stór orð um þrjá félaga sína sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. Hann sakaði þá um ódrengilega framkomu. Þá sagðist hann ekki trúa frétt Morgunblaðsins í gærmorgun um að þingmennirnir hefðu átt samráðsfund með Ögmundi Jónassyni, Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem er í fæðingarorlofi, en Árni Þór leysir hana af sem formaður þingflokksins. Því miður spurði Helgi Seljan ekki þeirrar augljósu spurningar hvort Árni Þór hefði ekki rætt við ráðherrana eða Guðfríði Lilju um hvort fréttin ætti við rök að styðjast. Slíkt hefði verið eðlilegt og í samræmi við skyldur starfandi þingflokksformanns. En kannski lýsir það ástandinu í þingflokksherbergi VG að menn eru hættir að ræða þar saman. Þar er allt helforsið og stór grýlukerti teygja sig niður úr loftinu, svo vitnað sé til ónefnds þingmanns.

Ögmundur hefur greinilega talið sig nauðbeygðan til þess að leiðrétta Árna Þór. Á heimasíðu sinni skrifar hann, eftir viðtalið í Kastljósi:

"Flokksfélagi minn - starfandi þingflokksformaður í fjarveru Guðfríðar Lilju  Grétarsdóttur, sem er í fæðingarorlofi - segist vart trúa Morgunblaðsfrétt um að hjásetumenn hafi átt spjallfund með tveimur ráðherrum, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni ásamt þingflokksformanni í fæðingarorlofi.  Honum er alveg óhætt að trúa fréttinni - enda var ég búinn að staðfesta spjallið  í viðtali við fréttamiðil."


Mogginn stendur best að vígi

Enn sem komið er hefur þessi þróun ekki náð svo langt hér á landi. Prentmiðlar eru enn með mun stærri hluta auglýsinga en vefmiðlar. Ég veit ekki af hverju. Kannski er það íhaldssemi auglýsenda og kannski er það tregða birtingahúsa og auglýsingastofa. Þó er notkun vefmiðla gríðarleg hér á landi og öll rök eru fyrir því að mun meira auglýsingafé renni til birtinga á netinu.

Allt er þetta spurning um tíma því netmiðlarnir munu sækja enn frekar fram hér á landi. Og í baráttunni um auglýsingafé stendur útgáfufélag Morgunblaðsins langbest að vígi. Mbl.is ber höfuð og herðar yfir alla íslenska netmiðla, hvort heldur litið er til gæða eða fjölda notenda. 


mbl.is Netið fram úr dagblöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanir eru meginstef í pólitík Jóhönnu

johannahotar.jpg

Í gær var það rifjað upp hvernig Jóhanna Sigurðardóttir notar hótanir til að ná fram sínum pólitískum markmiðum. Þannig gekk hún út af ríkisstjórnarfundi í september 1993 vegna andstöðu sinnar við fjárlagafrumvarp komandi árs. Þá var Jóhanna félagsmálaráðherra. 

En þetta er langt í frá að vera eina dæmið um að Jóhanna noti hótanir til að ná sínu fram. Skiptir engu hvort hún er óbreyttur þingmaður eða ráðherra eða jafnvel forsætisráðherra. Þetta staðfesti Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins á Bylgjunni. 

Vert að rifja upp fleiri dæmi en Jóhanna var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar frá júlí 1987 til september 1988, þegar stjórnin sprakk með hvelli. Í nóvember 1987 hafði Alþingi til meðferðar frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðislánakerfið. Jóhanna lagði mikla áherslu á að frumvarpið yrði að lögum en þar var meðal annars gengið út frá því að þeir sem áttu skuldlausar eða skuldlitlar eignir hefðu ekki sömu réttindi og þeir sem enga eign áttu eða voru að stækka við sig vegna fjölskyldustærðar.

Þjóðviljinn fjallaði um málið í fjögurra dálka frétt á baksíðu undir fyrirsögninni: Jóhanna hefur í hótunum. Þar sagði meðal annars:

"Jóhanna Sigurðardóttir hótar því að sitja ekki ríkisstjórnarfundi verði frumvarp hennar um húsnæðislánakerið ekki afgreitt fyrir áramót. Frumvarpið var afgreitt úr félagsmálanefnd í gær en mestur styrr hafði staðið um  gildistíma frumvarpsins."

Síðar í fréttinni sagði:

"Jóhanna leggur mikla áherslu á að lögin verði samþykkt fyrir jól og hefur hótað að sitja ekki ríkisstjórnarfundi verði forsætisráðherra ekki við þeirri ósk hennar."

Þessi fyrirsögn varð Sigmund innblástur fyrir enn eina snilldarteikninguna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband