Vindmyllur á Alþingi

Vægt er til orða tekið þegar því er haldið fram að áform fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar, að leggja á kolefnisgjald á rafskaut sé umdeild enda starfsemi fyrirtækja stefnt í hættu og fyrirhugaðar fjárfestingar í kísilverksmiðjum verða líklega að engu. Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur haft ríkisstjórnina á skilorði, virðist vera óhress með nýja skattinn. Spurning hvort hann líti svo á að ríkisstjórnin hafi brotið skilorðið.

Andrés Magnússon blaðamaður skrifar vikulega pistla um fjölmiðla í Viðskiptablaðið. Pistlarnir eru skyldulesning fyrir alla sem vilja fylgjast með þjóðmálum. Í beittri gagnrýni beitir Andrés stundum háði:

"Fram kom í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson, gamlan kollega, í Reykjavík síðdegis í gær, að hann teldi að ekki væri „þingmeirihluti fyrir kolefnisskatti inni á Alþingi“.

Það er synd. Það sér það hver maður að kolefnisskattur inni á Alþingi gæti reynst snauðum ríkissjóði drjúg tekjulind.

Við stöku þingmann mætti jafnvel setja vindmyllu án þess að veruleg sjónmengun hlytist af."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband