Áróðurinn fyrir Icesave hafinn
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Áróðurinn fyrir því að Alþingi samþykki Icesave-samningana er hafinn að nýju, líkt og gert var þegar Svavars-samningarnir voru gerðir í júní 2009. Þá var hver sérfræðingurinn á fætur öðrum dreginn fram til að styðja við spádóma um efnahagslega einangrun og svartnætti. Jafnvel virðulegur hagfræðiprófessor taldi að á Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að taka á sig Icesave-klyfjar, þó engin lagalegar kvaðir væru þar fyrir hendi.
Niðurstaða könnunar Gallup, sem Ríkisútvarpið greinir frá, er merkileg fyrir tvennt. Það er ekki meirihluti fyrir því að leggja skuldir einkabanka á skattgreiðendur og mikill minnihluti landsmanna gerir sér grein fyrir hvað í nýjum Icesave-samningum felst. Samkvæmt útreikningum Gamma gæti "skuldin" verið allt að 233 milljörðum króna en í besta falli 26 milljarðar.
Nú hefur verið upplýst að fjármálaráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar, gerir ráð fyrir því að íslenskir skattgreiðendur greiði liðlega 26 milljarða króna á þessu ári vegna Icesave og alls nær 59 milljarða fram til ársins 2016.
Mikið hefði verið gaman ef Gallup hefði spurt:
Ert þú fylgjandi eða andvígur því að íslenskir skattgreiðendur greiði 26,1 milljarð króna á þessu ári vegna Icesave-skulda Landsbankans?
Ég held að niðurstaðan hefði orðið önnur en Ríkisútvarpið greindi frá.
Eitt er víst í mínum huga eins og ég hef sagt áður:
"Þingmenn geta og hafa ekkert leyfi til að samþykkja hinn svokallaða nýja Icesave-samning. Það er nauðsynlegt að allir þingmenn sem hafa staðið vaktina haldi því áfram og berjist gegn samningnum. Ef það er vilji Íslendinga að taka á sig þessar skuldbindingar, sem þeim ber ekki, þá verða þeir sjálfir að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. 63 þingmenn hafa engan siðferðilegan rétt til að taka slíka ákvörðun."
![]() |
Tæpur helmingur vill samþykkja Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:15 | Facebook