Stikkfrí dómsvald?

si_asta_vornin_1123868.jpg

Skafti Harðarson telur að full þörf sé á stofnun sjálfstæðs félagsskapar áhugamanna um störf dómara, og niðurstöður dóma. Með því sé hægt að koma fram með rökstudda gagnrýni á dómsvaldið. Í Síðustu vörninni, er fyrirkomulag skipunar Hæstaréttardómara gagnrýnt og því haldið fram að rétturinn geti nánast valið sjálfur hverja hann fær í félagsskapinn. Í pistli á bloggsíðu sinni segir Skafti meðal annars um Síðustu vörnina:

"Hér sér um að ræða eins konar „sjálfskipun vitringanna”. Með þessu er komið í veg fyrir gagnrýni á réttinn frá öllum þeim sem helst skyldi, þ.e. fræðimönnum og lögspekingum sem eðli málsins samkvæmt gætu síðar orðið umsækjendur um starf dómara við Hæstarétt.

Það gleymist mörgum að Hæstiréttur gerði sitt ítrasta bæði 2003 og 2004 til að fá „sína” menn valda í dóminn, óháð því hvað telja mátti heppilegst fyrir dóminn sjálfan til að koma í veg fyrir einsleitni og kumpánlegt „kunningjasamfélag”. Óli Björn bendir á að í umsögn um umsækjendur árið 2003 taldi rétturinn mikilvægt að nýr dómari hefði málflutningsreynslu. En ráðherra skipaði mann sem hafði langa dómarareynslu, en hafði ekki sinnt málflutningi. Árið eftir var hins vegar ekki mikilvægt að halda þessu til streitu, enda sótti þá um Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður með mikla málflutningsreynslu, sem iðulega hafði verið gagnrýninn á ýmsa dóma Hæstaréttar.

Og ljúkum þessu á orðum Óla Björns um háttalag Hæstaréttar á þessum árum: „Augljóst er að Hæstiréttur gekk langt úr fyrir ákvæði laganna og reyndi með skipulegum hætti að velja dómara inn í réttinn. Það sætir furðu hversu litla umfjöllun þetta háttalag réttarins fékk. Fræðasamfélag lögmanna gaf þessu lítinn gaum annan en að verja umsagnir Hæstaréttar og flokkun hans á umsækjendum.”

Tillaga Óla Björns er að meirihluti Alþingis verði að samþykkja tillögu Innanríkisráðherra um skipun hæstaréttardómara, sem aftur byggir á meðmælum hæfnisnefndar. En sú nefnd á auðvitað ekki að vera skipuð að hluta, enn síður meirihluta, af sitjandi dómurum, eins og reyndin er í dag.

Full þörf er á stofnun sjálfstæðs félagsskapar áhugamanna um störf dómara, niðurstöðu dóma í mikilvægum málum, þar sem talsmaður slíks félags gæti komið fram með rökstudda gagnrýni. Í gegnum slíkt félag gætu lögmenn og fræðimenn á sviðinu komið gagnrýni á störf dómara án þess að telja það geta teflt eigin frama í tvísýnu eða skaðað hagsmuni skjólstæðinga þeirra. Bók Óla Björns er vonandi aðeins upphafið að rökstuddri gagnrýni um dómsvaldið sem hingað til hefur sloppið allt of vel við í kjölfar hrunsins – og fyrir það. Og að líkindum með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband