Dómstólar skipta ráðherra engu

“Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.”

Þessi hörðu orð lét Jóhanna Sigurðardóttir falla á þingi 16. apríl 2004. Tilefnið var að kærunefnd jafnréttismála hafði gefið út það álit að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði ekki virt jafnréttislög við skipan hæstaréttardómara.

Tæpum fimm árum síðar komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sem félagsmálaráðherra gerst brotleg við 21. grein stjórnsýslulaga þegar hún vék einstaklingi úr stjórnarnefnd fatlaðra og skipaði annan. Í viðtali við Helga Seljan í Kastljósi 16. febrúar 2009 (en þá var Jóhanna orðin forsætisráðherra) var hún óbetranleg og sagðist ekkert þurfa að læra af dómi héraðsdóms. Ekki hafi “óeðlilega að þessu” staðið að víkja viðkomandi úr stjórnarnefndinni en sér þætti “fullkomlega óeðlilega hafa verið staðið” að málsókninni. Með öðrum orðum: Í huga Jóhönnu er það óeðlilegt að einstaklingur leiti réttar síns ef hún sem ráðherra brýtur stjórnsýslulög.

Á miðvikudag staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands um að ógilda ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem neitaði að staðfesta hluta aðalskipulags Flóahrepps varðandi Urriðafossvirkjun. Viðbrögð Svandísar eru ekki að biðja íbúa Flóahrepps afsökunar á stjórnsýslu sinni sem hefur valdið fjárhagslegum skaða. Nei, hún ætlar að fara í endurskoðun á lagaumhverfi við gerð skipulags. Í frétt Morgunblaðsins segir:

“Svandís sagði að ráðuneytið þyrfti að fara yfir dóminn og skoða hvort lagaumhverfi væri nægilega skýrt fyrir sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsvinnunni. Eitt af því sem þyrfti að skoða væri hvort framkvæmdaaðilar gætu tekið þátt í hverju sem er.”

Þannig bregðast ráðherrar ríkisstjórnarinnar við niðurstöðum dómstóla. Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnir einstakling sem sækir rétt sinn til dómstóla þegar ráðherra brýtur stjórnsýslulög og Svandís Svavarsdóttir ætlar bara að breyta lögum því dómstólar komust ekki að niðurstöðu sem henni er þóknanleg. Er nema furða að fyrstu viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttir við úrskurði Hæstaréttar um ólögmæti kosninga til stjórnlagaþings, hafi verið þau að best væri að Alþingi færi í kringum um dóminn með því að skipa 25 stjórnlagaþingsmenn á grunni niðurstöðu ólöglegra kosninga.

Þannig er íslenskt framkvæmdavald í dag.


mbl.is Landsvirkjun í biðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband