Hvað hefur breyst frá 30. desember 2009?

Alþingi samþykkti  ofbeldissamninga við Breta og Hollendinga í annað sinn 30. desember 2009. Síðar neitaði forsetinn að staðfesta lögin um ríkisábyrgð og í mars á liðnu ári höfnuðu 98% þeirra sem afstöðu tóku að gangast í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Áður en ríkisábyrgðin var samþykkt af meirihluta þingsins var breytingatillaga Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðis felld með 33 atkvæðum gegn 30.

Breytingartillaga Péturs var einföld en þar sagði meðal annars í 1. grein:

"Bera skal heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð skv. 1. mgr. undir þjóðaratkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna. Heimildin skal veitt sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi því."

Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, auk nokkurra stjórnarþingmanna studdu tillögu Péturs Blöndal, en það dugði ekki til. Pétur sagði við atkvæðagreiðsluna:

"Hér er lagt til að borgarar þessa lands taki ákvörðun um það hvort þeir vilji taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar, sem ekki aðeins þeir, heldur líka börnin þeirra og barnabörn, munu greiða. Ég treysti þeim fullkomlega til þess ..."

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:

"Hvers vegna er þjóðinni ekki treyst? Óttast ríkisstjórnin kannski þjóðina og vilja hennar? Þetta mál á að bera undir ákvörðunarvald íslensku þjóðarinnar. Ég segi því já."

Illugi Gunnarsson var afdráttarlaus og taldi að sár yrði í þjóðarsálinni ef þjóðin fengi ekki að taka afstöðu til ríkisábyrgðar:

"En í þessu máli er það svo að gangi það fram geta afleiðingar þess orðið svo alvarlegar fyrir íslenska þjóð að það eru þung og sterk rök fyrir því að þjóðin kveði sjálf upp sinn dóm í þessu máli. Það verður sár í þjóðarsálinni ef þetta mál fær ekki að fara til þjóðarinnar og þjóðin að segja skoðun sína beint."

Um það verður ekki deilt að þeir samningar sem nú liggja fyrir eru miklu hagstæðari en fyrri samningar. En eftir sem áður er ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja fram opna ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis.

Það er rétt sem Illugi Gunnarsson sagði á þingi að Icesave mun skilja eftir sár í þjóðarsálinni ef þjóðin fær ekki sjálf að ákveða framgang málsins. Sárið verður enn dýpra en áður ef Alþingi ætlar með öllu að hunsa skoðun 98% kjósenda sem höfnuðu ríkisábyrgð fyrir tæpu einu ári. Það er því óskiljanlegt af hverju þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki þegar sett það sem skilyrði að frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð öðlist ekki gildi nema með samþykkt meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað hefur breyst frá 30. desember 2009? Svarið er; lítið annað en ein þjóðaratkvæðagreiðsla í framhaldi af synjun forseta Íslands.


mbl.is Forystufólk í stjórnarflokkunum vill ekki þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband