Afstaða sjálfstæðismanna mikil vonbrigði

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd leggja til í nefndaráliti að fallist verði á þá samninga sem liggja fyrir við bresk og hollensk stjórnvöld. Þar með verður veitt ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækisins Landsbankans - verið er að þjóðnýta tap einkafyrirtækja. Þessi afstaða félagana minna veldur miklum vonbrigðum. 

Það er mikil ögrun við íslenskan almenning ef meirihluti Alþingis samþykkir hina nýju Icesave-samninga. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafnaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars á liðnu ári, að ríkissjóður gengist í ábyrgð vegna Icesave-skulda Landsbankans. Fyrirliggjandi samningar og frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð, byggja á sömu forsendum og þjóðin hafnaði, þ.e.a.s. að eðlilegt teljist að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á starfsemi einkabanka í öðrum löndum. Um 93% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni sögðu nei við þessum skilningi. Undir þetta viðhorf hefur breska stórblaðið Financial Times tekið. Í leiðara blaðsins í desember var á það bent að ríkisábyrgð á Icesave byggi ekki á lagalegum grunni og alls ekki á sanngirni. Bent var á þá augljósu staðreynd að bresk eða hollensk yfirvöld myndu aldrei taka á sig kröfur erlenda innistæðueigenda upp á þriðjung landsframleiðslu, ef einn af stóru bönkunum þeirra færi á hausinn.

Þingmenn geta og hafa ekkert leyfi til að samþykkja hinn svokallaða nýja Icesave-samning. Því miður virðist sem brestur sem kominn í varðstöðu þeirra þingmanna sem staðið hafa vaktina. Ef það er vilji Íslendinga að taka á sig þessar skuldbindingar, sem þeim ber engin lagaleg skylda til, þá verða þeir sjálfir að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. 63 þingmenn hafa engan siðferðilegan rétt til að taka slíka ákvörðun.
mbl.is Þjónar hagsmunum að ljúka Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband