Auðlindir í eigu og undir stjórn Íslendinga

Tvennt er fráleitt: Í fyrsta lagi að endurskoða stjórnarskrá, - grundvallarlög - í andstöðu við stóran hlut þjóðarinnar. Í öðru lagi að endurskoða stjórnarskrá í einhverju óðagoti, með upphrópunum einhvers pólitísks rétttrúnaðar og í þeirri trú að ástæður hrunsins eigi sér rætur í ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Einn þeirra sem hefur haldið því fram að stjórnarskráin sé ágæt er Sigurður Líndal lagaprófessor. Hann hefur oftar en einu sinni bent á þá einföldu staðreynd að það séu draumórar að rekja megi hrunið 2008 til stjórnarskrárinnar. Með slíku sé verið að dylja vandann. Sigurður hefur áhyggjur af því að í skjóli merkingarleysis orða hafi þrifist óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi og til hennar megi rekja margvíslegan ófarnað.

Í stórgóðri grein sem Sigurður skrifar í Fréttablaðið fjallar hann um tískuorð sem einkenna umræðuna, þar á meðal að "auðlindir verði þjóðareign". Jóhanna Sigurðardóttir hefur farið mikinn í þessum efnum eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaþings hefðu verið ólöglegar. Hún hefur sakað "íhaldið" að standa í vegi fyrir því að ákvæðum um þjóðareign auðlinda verði í stjórnarskrá. Hér talar Jóhanna enn og aftur gegn staðreyndum.

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar," segir í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Um þetta hefur verið pólitísk samstaða. Í mars 2007 lagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, þá viðskiptaráðherra, fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni um breytingar á stjórnarskránni. Lagt var til að ný grein bættist við:

"Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."

 Í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2010 segir:

"Eign og ráðstöfunarréttur á auðlindum er og verði í höndum þjóðarinnar."

Það liggur því fyrir að "íhaldið" hefur ekki staðið í vegi fyrir að ákvæði um að "auðlindir séu sameigin þjóðarinnar".

Vandinn sem við er að glíma er hins vegar sú orðanotkun sem einkennir umræðuna um breytingar á stjórnarskrá. Það er eitt að segja að auðlindir skuli vera þjóðareign og annað að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá en gæta jafnframt að gildandi ákvæðum um eignarrétt og atvinnufrelsi. Varla er að ætlun Jóhönnu Sigurðardóttur eða annarra að ganga á eignarrétt.

Í áðurnefndri grein bendir Sigurður Líndal á vandann:

"En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð: "þjóðareign"? - Nú eru lendur og lóðir margar í einkaeign, einnig eru víðlend svæði eign ríkis og sveitarfélaga. Auðlindir sem þar er að finna eru eign eigandans, hvort heldur einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana. Þessi réttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar a.m.k. sem atvinnuréttindi, jafnvel bein eignarréttindi að sumra mati. Þessu hefur aldrei verið andmælt með lagalegum rökum. Orðið þjóðareign í þessu samhengi er þannig merkingarlaust í lögfræðilegum skilningi. Ef nota á það í víðtækari merkingu - eins og Íslendingar "eigi" landið, tunguna og fornbókmenntirnar - er það ónothæft í lagatextum og allri rökræðu."

Nú kann að vera að hægt sé að ná viðunandi niðurstöðu um þjóðareign þeirra auðlinda sem eru nú þegar í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. En þá væri samhliða skynsamlegt að setja inn ákvæði er leggi bann við því að yfirráð og stjórnun á nýtingu þeirra verði með beinum eða óbeinum hætti framseld til annarra ríkja eða alþjóðlega samtaka. 


mbl.is Alþingi hefji endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband