Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Umhverfisvæn kvennastörf!!

Stundum er erfitt að átta sig röksemdafærslu í opinberri umræðu, ekki síst vegna þess að sífellt skjóta upp kollinum ný orð sem eru ýmist merkingarlaus eða merking þeirra svo djúpstæð að þau verða vart skilin án þess að þau séu skýrð út.

Á föstudagskvöld atti Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar kappi við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Með þeim var einnig framsóknarmaðurinn, Hölskuldur Þórhallsson. Tilefnið var ákvörðun Ögmundar um að heimila ekki kaup kínversks fjárfestis á Grímstöðum á Fjöllum. Sigmundur Ernir var harður í gagnrýni sinni og gaf ráðherranum lítil grið. Eitt af því sem Sigmundur Ernir benti á var að með ákvörðun sinni væri ráðherrann að koma í veg fyrir að til yrðu um 400 störf í ferðaþjónustu og á annað hundrað óbein störf. Allt skiljanlegt en þegar þingmaðurinn undirstrikaði í tvígang að meðal annars væri um að ræða umhverfisvæn kvennastörf, þá hætti sá er hér skrifar að skilja. 

Hvað eru umhverfisvæn kvennastörf? Og fyrst til eru sérstök kvennastörf sem teljast umhverfisvæn, þá hljóta að vera til kvennastörf sem ekki teljast góð út frá hagsmunum náttúrunnar. Hvaða störf eru það? 

Aumingja Jóhanna!

Styrmir Gunnarsson bendir á að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé í raun áhrifalaus og ekki er laust við að hann vorkenni ráðherranum.

Í Pottinum á Evrópuvaktinni vekur Styrmir athygli á því að Jóhanna geti ekkert gert. Hún sé sáróánægð með ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að neita kínverskum fjárfesti að kaupa Grímstaði á Fjöllum:

"Svo gerist ekkert. Jóhanna getur ekkert gert. Hún getur ekki rekið Ögmund. Hún getur ekki ávítt hann. Hún er áhrifalaus.

Hvernig má það vera, að forsætisráðherrann sé svona áhrifalaus með öllu?

Það er einföld skýring á því.

Fari hún að birsta sig við Ögmund og hóta honum öllu illu er ríkisstjórn hennar fallin. Hún hefur bara eitt atkvæði að byggja á.

Hún getur rekið hornin í Ögmund Jónasson eða Jón Bjarnason en ekkert meir.

Aumingja Jóhanna."

Innantómar upphrópanir og gagnrýni

Þingmenn Samfylkingarinnar geta haft hátt, talað digurbarkalega og gagnrýnt Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Vinstri græna með óvægnum hætti. Þeir geta hrópað og látið öllum illum látum vegna „afturhalds“ og „brjálaðrar ákvörðunar“ og hugleitt upphátt um eigin „meðvirkni“. En allt tal, hróp og upphlaup munu engu skipta. Þeir hafa ekki pólitískt þrek til að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Vinstri græna og „meðvirknin“ heldur því áfram.

Viðbrögð þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar við ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að um að synja beiðni Huang Nubo um undanþágu til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, eru ágæt dægrastytting fjölmiðla í skammdeginu. Fóður í góðar fyrirsagnir og líflegt 30 sekúnda myndskeið í kvöldfréttum.

Sjá T24


mbl.is Vekur spurningar um samstarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hófsemd í skattlagningu?

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, virðist trúa því í einlægni að ríkisstjórnin fari fram af hófsemd í skattlagningu. Í grein í Fréttablaðinu 24. nóvember skrifar hann:

"Við jafnaðarmenn viljum ganga fram af hófsemi fram í skattlagningu en viljum vernda öflugt mennta- og velferðarkerfi. Við viljum bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja með afnámi tolla og lægri vöxtum en við viljum líka að fyrirtækin sem nýti auðlindir, greiði auðlindaskatt. Þannig mótum við stefnu okkar að hófsemi og sanngirni."

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að nú séu breytingartímar og "ég tel að þarna höfum við farið aðeins fram úr okkur," og vísar þar til áforma fjármálaráðherra að leggja á kolefnisgjald á stóriðju. Hófsemdin er slík að fjármálaráðherra ætlar að stunda tvísköttun á komandi árum.

Magnús Orri er örugglega ekki að hæðast að skattgreiðendum, - hann virðist ekki vita betur. Kannski er rétt að Magnús Orri skoði yfirlit yfir skattabreytingar á síðustu árum, sem Viðskiptaráð hefur tekið saman og hægt er a skoða hér. Yfirlitið gengur þvert á yfirlýsingu þingmannsins um hófsemd í skattlagningu.
mbl.is „Tvísköttun á kolefnislosun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákærum Geir Haarde fyrir Grikkland

Eftir því sem lengra líður frá falli íslensku bankanna gera fleiri sér grein fyrir því hversu fráleitt það var af meirihluta þingmanna að ákæra Geir H, Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það eru margir sem eiga eftir að biðjast afsökunar á málsókninni. 

En gárungarnir eru á því að meirihluti þingmanna hafi gert mikil mistök þegar ákveðið var að stefna Geir fyrir Landsdóm. Ákæran hafi ekki verið nægilega víðtæk. Þannig hefði verið eðlilegt að ákæra Geir fyrir hrun gríska efnahagskerfisins, fyrir 25% atvinnuleysi á Spáni og fyrir efnahagslega kreppu í Portúgal og á Írlandi. Jafnvel hefði átt að athuga hvort Geir gæti ekki tekið vandræði Ítalíu og Berlusconis að sér. Það hafi einnig verið rétt að ákæra Geir fyrir erfiðleika Belgíu, fyrir minnkandi traust á Frakklandi og síðast en ekki síst fyrir gjaldþrot yfir 200 banka í Bandaríkjunum. Með slíkri ákæru hefði heimurinn getað sameinast um einn sökudólg. 

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi færir sannfærandi rök fyrir því að ekki sé hægt að kenna frelsinu um hvernig fór. Í pistli í Fréttablaðinu segir hún meðal annars:

"Einfaldar skýringar á okkar stöðu og annarra Evrópuríkja eru ekki til. Vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka á Íslandi, spár manna á Írlandi og Spáni um þróun fasteignaverðs og spilling í Grikklandi og á Ítalíu eru sennilegar skýringar. Þó er eitt sem öll þessi lönd áttu sameiginlegt. Í þeim öllum hefur þjónusta hins opinbera vaxið úr hófi fram. Í góðærinu sem á undan gekk reyndist auðvelt að fjármagna vöxtinn með sköttum og aukinni skuldsetningu. Nú þegar kreppir að reynist illmögulegt hvort heldur sem er að vaxa út úr vandanum eða draga nógu hratt saman útgjöld til að laga skuldastöðuna.

Verkefnið fram undan er hið sama hjá öllum þessum löndum og mun felast í niðurskurði, hagræðingu og áherslu á vöxt efnahagslífsins. Forgangsröðunin verður unnin í pólitísku samhengi einstakra landa en mun reynast afar erfið stjórnmálamönnum sem þurfa að sækjast eftir endurkjöri. Ríkisstjórnir sem þora að taka erfiðar ákvarðanir og leggja áherslu á uppbyggingu efnahagslífsins eru þær sem munu sjá hvað skjótastan bata. Hugsanlega skiptir þá máli hvort menn hugsa til hægri eða vinstri."


Hægrimenn styðja Ólaf Ragnar

Skoðanakönnun Viðskiptablaðsins staðfestir það sem marga hefur grunað. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sækir stuðning sinn fyrst og fremst til kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Vinstri menn í Samfylkingunni og Vinstri grænum hafa snúið baki við hinn gamla leiðtoga Alþýðubandalagsins.

Alls segjast 64,2% kjósenda Sjálfstæðisflokksins það koma til greina að kjósa Ólaf Ragnar í komandi forsetakosningum á næsta ári. Fylgi Ólafs Ragnar meðal framsóknarmanna er enn meira eða liðlega 85%. Hins vegar segjast 75,2% kjósenda Samfylkingarinnar ekki styðja forsetann og 65,5% kjósenda Vinstri grænna eru honum andsnúnir.

Þá vekur það athygli að yngstu kjósendurnir eru hliðhollari Ólafi Ragnari en þeir sem eldri eru. Alls segja 53,7% kjósenda að til greina komi að leggja Ólafi Ragnari lið í kosningum ákveði hann að sækjast eftir endurkjöri.

Stuðningur hægrisinna við Ólaf Ragnar skýrist líklega af tvennu. Annars vegar af Icesave og hins vegar hversu ötull talsmaður forsetinn hefur verið fyrir hönd Íslands á erlendum vettvangi. 

Nú liggur ekkert fyrir um hvort Ólafur Ragnar Grímsson sækist eftir endurkjöri eða ekki. Taki hann ákvörðun um að gefa enn og aftur kost á sér verður forvitnilegt að fylgjast með hvort vinstri menn leggi til atlögu við hann. Fátt myndi gleða Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon meira en að sjá einhvern annan - jafnvel hvern sem er - en Ólaf Ragnar á Bessastöðum.


mbl.is Meirihlutinn vill Ólaf Ragnar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindmyllur á Alþingi

Vægt er til orða tekið þegar því er haldið fram að áform fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar, að leggja á kolefnisgjald á rafskaut sé umdeild enda starfsemi fyrirtækja stefnt í hættu og fyrirhugaðar fjárfestingar í kísilverksmiðjum verða líklega að engu. Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur haft ríkisstjórnina á skilorði, virðist vera óhress með nýja skattinn. Spurning hvort hann líti svo á að ríkisstjórnin hafi brotið skilorðið.

Andrés Magnússon blaðamaður skrifar vikulega pistla um fjölmiðla í Viðskiptablaðið. Pistlarnir eru skyldulesning fyrir alla sem vilja fylgjast með þjóðmálum. Í beittri gagnrýni beitir Andrés stundum háði:

"Fram kom í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson, gamlan kollega, í Reykjavík síðdegis í gær, að hann teldi að ekki væri „þingmeirihluti fyrir kolefnisskatti inni á Alþingi“.

Það er synd. Það sér það hver maður að kolefnisskattur inni á Alþingi gæti reynst snauðum ríkissjóði drjúg tekjulind.

Við stöku þingmann mætti jafnvel setja vindmyllu án þess að veruleg sjónmengun hlytist af."


Falin frétt í ekki-frétt

Það er eitthvað sérkennilegt við að það sé talið frétt að fyrirtæki, sem ekki getur staðið við veita þjónustu sem greitt hefur verið fyrir, skuli ætla sér að endurgreiða viðskiptavinum sínum.

Það er gömul regla í blaðamennsku að það sé engin frétt að hundur bíti mann en ef maður bítur hund sé það frétt. Með sama hætti er það ekki frétt að Iceland Express ætli sér að endurgreiða farþegum sem greitt hafa fyrir ferð sem aldrei verður farin. En auðvitað hefði það verið frétt ef fyrirtækið ætlaði sér ekki að standa skil gagnvart viðskiptavinum sínum.

Ákvörðun Iceland Express að fella niður flug til New York er skiljanleg þegar orð Heimis Más Péturssonar upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, eru höfð í huga. Eftirspurning var ekki nægjanleg, miðar of ódýrir og tap á hverri einustu ferð til New York.

Það er auðvitað frétt að Iceland Express hafi tapað á hverri einustu ferð, en sú frétt er falin í ekki-frétt um endurgreiðslu.


mbl.is Býðst til að endurgreiða farþegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmenn skrapa upp atkvæði

Framsóknarmenn eru farnir að búa sig undir alþingiskosningar. Þeir ætla sér að "skrapa" upp atkvæði. Ég hef oft heyrt og séð boð frá stjórnmálaflokkum þar sem flokksmenn eru hvattir til að fiska eða veiða atkvæði og tryggja að "okkar" fólk mæti á kjörstað. En áminning Framsóknarflokksins um að nú skuli "skrapa" atkvæði er nýtt.

Á heimasíðu Framsóknarflokksins er frétt undir fyrirsögninni: Verum viðbúin kosningum á næsta ári. Þar er vitnað til gildandi laga um kosningar og síðan segir:

"Allir Framsóknarmenn og aðrir andstæðingar núverandi stjórnarstefnu eru eindregið hvattir til að vera viðbúnir kosningum á næsta ári og skrapa upp öll þau atkvæði sem vilja sjá betra Ísland á grunni samvinnu og jafnaðar."


Einbeittur (brota)vilji ríkisstjórnar gegn atvinnulífinu

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, heldur baráttunni gegn atvinnulífinu áfram og gefur ekki þumlung eftir. Þeirri einföldu reglu er fylgt að allt sem hreyfist skuli skattlagt og sé grunur um að eitthvað geti komist á hreyfingu skal það drepið í fæðingu. Í baráttu sinni hafa Jóhanna og Steingrímur J. loforð að engu.

Nýjasta tilraun ríkisstjórnarinnar til að hemja atvinnulífið er kolefnisgjald á rafskaut í orkufrekum iðnaði, sem fjármálaráðherra lætur sig dreyma um.

Áform Jóhönnu og Steingríms J. um kolefnisgjald er skýrt brot á samningum við fyrirtækin en markmiðið var að starfsskilyrði fyrirtækjanna yrði almennt ekki verri en í Evrópu.

Sjá T24


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband