Egill telur ESB-viðræður tilgangslitlar

Egill Helgason sér lítinn tilgang í að halda áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Hann segist sannfærður um að samningur við sambandið verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í pistli á bloggsíðu sinni segir Egill að það sé smávægilegt mál hvort Ísland gengur í ESB  þegar erfiðleikar sambandsins eru hafðir í huga. Umræðan hér á landi sé með ólíkindum þröng og einkennist af stanslausum upphrópunum:

"En maður veltir samt fyrir sér hvort þetta sé rétti tíminn fyrir viðræður. Staðan í Evrópu er ansi mikið öðruvísi en hún var þegar sótt var um aðild sumarið 2009. ESB leikur á reiðiskjálfi, það eru haldnir stöðugir neyðarfundir sem slá þó ekki á kreppuna.

En íslenska ríkisstjórnin virðist staðráðin í að halda aðildarviðræðum til þrautar – og helst semja nógu hratt – við bandalag sem við vitum ekki hvert er að fara.

Maður veltir því næstum fyrir sér hvort Nei-sinnar eigi sinn besta bandamann í ríkisstjórninni – það er samið á tíma þegar er nær útilokað að íslenska þjóðin samþykki aðild. Verði hún felld er ljóst að málið verður ekki á dagskránni í að minnsta kosti áratug – og líklega lengur."

Lífleg umræða fór þegar af stað eftir skrif Egils og einn þeirra sem gerir athugasemdir er Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins:

"Ég skil ekki hvernig þú færð það endurtekið út að einhver mikill meirihluti muni hafna aðildarviðræðum. Launamenn eru allalvega búnir fá meir en nóg af því að búa við þetta ástand og eru í vaxandi mæli að greiða atkvæði með fótunum. Eins er það endurtekið í skoðanakönnunum að 2/3 vill klára viðræðurnar. Ég skil að Heimsýnarmenn eru að fara á taugum, en ekki hvert þú ert að fara."

Egill svarar Guðmundi stutt og skorinort:

"Ég tel 99 prósent öruggt að samningur verður felldur."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband