FL Group flaug hátt í Bandaríkjunum og nauðlenti

American Airlines tengist Íslandi töluverðum böndum. Þegar FL Group var í hæstu hæðum var ákveðið að félagið fjárfesti í bandaríska flugfélaginu. Um þessi kaup, sem urðu félaginu dýrkeypt, er fjallað í bókinni, Stoðir FL bresta, sem kom út árið 2008.

Rétt er af þessu tilefni að birta viðkomandi kafla úr bókinni:

Undir lok árs 2006 voru stjórnendur FL Group fullir sjálfstrausts og höfðu nokkra ástæðu til. Fjárfesting í hlutabréfum breska lággjaldaflugfélagsins EasyJet hafði skilað félaginu miklum hagnaði sem félagið hafði innleyst. Salan á Icelandair gaf félaginu um 26 milljarða króna í hagnað.

Undir lok árs var greint frá því að FL Group hefði keypt 5,98% hlutafjár í AMR Corporation, móðurfélagi American Airlines. Með kaupunum varð FL þriðji stærsti hluthafinn í AMR. Í tilkynningu til Kauphallar var því haldið fram að FL Group hefði skapað sér nafn á evrópskum fjármálamörkuðum fyrir fjárfestingarstefnu sína. Bent var á að félagið hefði náð umtalsverðum árangri í fjárfestingum sínum á sviði flugrekstrar „þar með talið eru kaup á Sterling, stærsta lággjaldaflugfélagi á Norðurlöndum, og uppbygging 23% eignarhluta í Finnair“.

Yfirlýsing Hannesar Smárason í tilefni af kaupunum á hlutabréfum í AMR segir meira en flest annað um þá bjartsýni sem ríkti innan FL Group um framtíðina:

„Við höfum þá trú að AMR Corporation sé í mjög góðri stöðu til að nýta sér þann vöxt sem er í flugrekstri í Bandaríkjunum. Mun meira jafnvægi ríkir nú milli framboðs og eftirspurnar en áður var og okkar mat er að AMR Corp. sé í mjög sterkri stöðu til að nýta sér það, auk þess sem það á auðvelt með að afla sér aukatekna. Við teljum þetta mjög spennandi fjárfestingu fyrir FL Group.“

Ekki var langt á milli stórra högga en FL hélt áfram að kaupa hlutabréf í AMR og í febrúar var félagið orðið stærsti hluthafinn með 8,63% hlutafjár. Hannes Smárason sagðist vera bjarsýnn enda hafi verið „fylgst mjög grannt með rekstri flugfélaga í Bandaríkjunum“ og talið að „horfur AMR Corporation fyrir árið 2007 séu afar góðar“. FL hélt áfram að veðja á AMR því félagið jók hlut sinn á þriðja ársfjórðungi 2007 og var í lok september komið með 9,14% hlutafjár.

Gengi hlutabréfa AMR hafði hækkað töluvert frá ágúst 2006 og þegar sagt var fyrst frá fjárfestingu FL Group í bandaríska félaginu var gengi bréfanna rétt yfir 30 dollara á hlut.

Í ágúst var gengið innan við 20 dollara en fór hækkandi og fór upp í liðlega 34 dollara undir lok nóvember. Þá lækkaði gengið aftur en hækkaði á nýju ári. Hæst fór gengi bréfanna í 41 dollar um miðjan janúar 2007.

Flest benti til þess að fjárfestingin í AMR gæti skilað hluthöfum FL Group töluverðum ávinningi miðað við gengisþróunina fyrstu vikurnar eftir að tilkynnt var um kaupin. Þá kom fram að markaðsvirði eignarhluta FL (5,98%) væri ríflega 28 milljarðar króna. Í febrúar var fjárfesting FL Group í bandaríska félaginu um eða yfir 40 milljarðar króna, en þá fór að halla undan fæti og raunar hófst lækkunarferli hlutabréfa í AMR upp úr 12. febrúar. Segja má að hlutabréfin hafi verið í frjálsu falli allt fram til byrjun júlí 2008 þegar þau tóku að hækka lítillega þó gengið hafi sveiflast verulega líkt og gengi flestra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði.

Reynt að hafa áhrif

FL Group reyndi mjög að hafa áhrif á störf og stefnu AMR en í þá fáu mánuði sem félagið var þar hluthafi hafði það ekki erindi sem erfiði. Raunar virðist sem forráðamönnum FL Group hafi lítið orðið ágengt í viðleitni sinni að gerast umbreytingafjárfestar, eins og það er orðað. FL var valda- og áhrifalaust í nær öllum fyrirtækjum sem fjárfest var í á erlendri grundu. AMR var þar engin undantekning.

Undir lok september 2007 sendi Hannes Smárason formlegt bréf til stjórnar AMR þar sem hann hvatti stjórnendur fyrirtækisins til að selja vildarklúbb félagsins, en þar voru talin mikil verðmæti, og um leið að auka upplýsingagjöf til hluthafa. Tillögur Hannesar vöktu töluverða athygli og fjölmiðlar í Bandaríkjunum fjölluðu um þær og töldu þær jákvæðar. AMR lét undan þrýstingi og lét þau boð út ganga 28. nóvember að félagið myndi selja American Eagle flugfélagið, sem var hluti af samsteypu félagsins. Stjórnendur AMR neituðu hins vegar að þeir væru að láta undan heldur hefði verið unnið að sölu á American Eagle í nokkrum tíma, en um miðjan október hafði stjórn AMR gefið út að hugað væri á sölu á ákveðnum einingum. Tveimur dögum eftir að AMR tilkynnti um fyrirhugaða sölu greindi FL Group frá því að féfl-american.jpglagið hefði selt stærsta hluta eignar sinnar í bandaríska félaginu með miklu fjárhagslegu tapi. Þá var lífróðurinn í FL hafinn.

Síðasta dag nóvember 2007 sendi FL Group út tilkynningu um að félagið hefði selt rúm 8% í AMR. Eftir söluna átti félagið 1,1% hlut en félagið hafði aukið hlut sinn í 9,14% á þriðja ársfjórðungi eins og áður segir. Í tilkynningu til Kauphallarinnar sagði að sala bréfanna væri í „samræmi við stefnu FL Group að auka fjölbreytni eignasafns sína og mun félagið í kjölfarið skoða áhugaverð fjáfestingatækifæri á markaði“. Bent var á tillögur FL Group um hvernig auka mætti verðmæti AMR hefðu vakið athygli og umræðu í Bandaríkjunum:

„Umfjallanir greiningaraðila í Bandaríkjunum hafa að miklu leyti verið í samræmi við áherslur FL Group, sem telja falin tækifæri liggja í rekstri AMR. Hinsvegar hafa hlutabréf í félaginu lækkað umtalsvert á árinu en þá lækkun má að mestu skýra með mikilli hækkun olíuverðs og spám markaðsaðila um minni hagvöxt í Bandaríkjunum. Til að mynda hefur hráolíuverð í Bandaríkjunum hækkað um 60% á árinu.

Þrátt fyrir að jákvæð skref hafi verið stigin af hálfu stjórnar AMR til að auka virði hluthafa félagsins og jákvæða umræðu í Bandaríkjunum, telur FL Group að of mikil óvissa ríki um þau áform og hvenær þeim yrði hrint í framkvæmd. Auk þess eru blikur á lofti um áframhaldandi hækkun olíuverðs og hugsanlegan samdrátt í bandarísku efnahagslífi. Í því ljósi var það ákvörðun félagsins að selja megnið af hlut sínum í AMR og skoða aðra fjárfestingakosti á markaði í kjölfarið.“

Kaupin á hlutabréfum í AMR Corporation reyndust þungur baggi á FL Group. Þegar ákveðið var að selja langstærsta hluta bréfanna innan við ári eftir að tilkynnt var um fjárfestinguna í AMR, var gengi þeirra um 21 dollar á hlut. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2007 gjaldfærði FL Group um 13 milljarða króna vegna hlutabréfaeignarinnar í AMR en þrátt fyrir það varð tveggja milljarða tap á sölu 8% hlutabréfanna í lok nóvember. Heildartapið á AMR var því komið í 15 milljarða króna.

En þar með er sagan ekki öll því fyrir áramót 2007 seldi félagið þau hlutabréf sem eftir stóðu – 1,1%. Í ársreikningi fyrir 2007 kemur fram að FL Group átti ekki hlut í AMR í lok þess árs en ekki var formlega sagt frá því hvenær síðustu bréfin voru seld. Frá lokum nóvember til ársloka 2007 lækkuðu hlutabréf AMR um þriðjung í verði og var lokaverð þeirra 14,03 dollarar á hlut síðasta viðskiptadag ársins. Ætla má að sölutap FL á síðustu vikum ársins 2007 hafi verið um einn milljarður króna. Heildartap á fjárfestingunni í AMR var því um 16 milljarðar króna þegar upp er staðið. Hagstæð þróun íslensku krónunnar gagnvart dollar dró hins vegar töluvert úr bókhaldslegu tapi FL Group en dollarinn lækkaði um nær 14% gagnvart krónunni á árinu 2007. Á móti kemur að hér er fjármagnskostnaður ekki reiknaður inn.

Fullir bjartsýni nokkrum dögum fyrir fallið

Nokkrum vikum áður en FL Group neyddist til að selja meirihluta eignarinnar í AMR voru forráðamenn FL fullir bjartsýni um að fjárfestingin ætti eftir að reynast arðsöm.

Á fjárfestakynningu vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs sem haldin var 2. nóvember – aðeins 28 dögum áður en tilkynnt var um söluna á stærstum hluta eignarinnar í AMR – var reynt að sannfæra markaðsaðila um að mikil dulin verðmæti væru fólgin í bandaríska félaginu. Með sölu eigna AMR gæti verðmæti hlutabréfanna aukist um 70% frá þáverandi gengi sem var rétt undir 24 dollurum á hlut.

Forráðamenn FL töldu að með því að selja Aadvantage vildarklúbbinn væri hægt að auka markaðsverðmæti hluthafa AMR um 4,1 milljarð Bandaríkjadollara. Á fjárfestakynningunni var því haldið fram að verðmæti vildarklúbbsins væri um 6 milljarðar dollara en sala á klúbbnum hefði neikvæð áhrif á AMR sem næmi 1,9 milljörðum dala.

Niðurstaða: Markaðsverðmæti AMR gæti verið 10 milljarðar dollara en ekki um 5,9 milljarðar líkt og gengi bréfa félagsins á hlutabréfamarkaði benti til.

Innan veggja FL Group var því haldið fram að með sölunni á vildarklúbbnum ætti gengi hlutabréfa AMR að vera yfir 40 dollarar á hlut. Með öðrum orðum: Þrátt fyrir að gengi hlutabréfanna í AMR hefði lækkað um rúm 26% á fyrstu níu mánuðum ársins og gjaldfært gengistap væri um 13 milljarðar króna, væru dulin verðmæti sem gætu skilað FL Group miklum hagnaði.

Með einföldum útreikningi sést að forráðamenn FL Group létu sig dreyma um að raunverulegt verðmæti hlutabréfanna í AMR væri tæpir 53 milljarðar króna en ekki 31,2 milljarðar sem var bókfært markaðsvirði bréfanna í lok september. Þannig væri ekki aðeins gjaldfært tap unnið upp heldur nettóhagnaður um eða yfir 8,6 milljarðar króna.

Merkilegt er að enginn þeirra aðila sem gefa út sérstakar greiningar á fyrirtækjum skuli hafa bent á ofangreint. Með framsetningu forráðamanna FL Group á eignarhlutnum í AMR var í besta falli verið að búa til óraunhæfar væntingar og róa hluthafa en í versta falli var reynt að breiða yfir raunverulega stöðu félagsins eins og síðar kom á daginn.


mbl.is Hefur ekki áhrif á flugvélakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband