Siðrof milli þings og þjóðar

Við skulum hafa eitt á hreinu: Þingmenn geta ekki samþykkt samninga við Breta og Hollendinga og veitt ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans, án þess að bera slíka ákvörðun undir þjóðina.Taki Alþingi slíka ákvörðun, verður ekki aðeins trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar heldur siðrof með afleiðingum sem eru margfalt þyngri en nokkur peningaleg skuld.

Allt frá hruni hefur mörgum stjórnmanninum verið tíðrætt um siðferði í viðskiptum og stjórnmálum. Stór orð hafa fallið um siðleysi og áhersla lögð á að siðrof hafi orðið í samfélaginu með skelfilegum afleiðingum. 

Í setningarræðu á landsfundi Samfylkingarinnar í mars 2009 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður, afdráttarlaus þegar hún leit til baka til að skila það sem hafði gerst:

"Ég hef almennt reynt að átta mig á því hvað hafi brugðist, hvað hafi hrundið af stað þeirri atburðarás sem leiddi til þessara hamfara og hvar og hvenær hún hófst. Ég hef síðast en ekki síst reynt að skilja það siðrof sem varð í íslensku samfélagi þegar ákveðinn hópur manna hætti að sækja sér viðmið í íslenskan veruleika, tók upp lífshætti erlendra auðmanna og gaf goðsögninni um stéttlaust samfélag á Íslandi langt nef."

Í ágúst 2009 hélt Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ræðu á Hólahátíð og fjallaði þar meðal annars um siðferði og sagði:

"Það var hin blinda efnis- og markaðshyggja, það var dýrkun græðginnar, það var það siðrof sem var að verða í íslensku samfélagi sem við erum að súpa seyðið af."

 Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í Morgunblaðsgrein 8. september 2009 að "hagsmunatengsl og siðrof komu okkur í hrunið".

 Þannig er hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi. 

Ögrun

Auðvitað hafa þingmenn frelsi til að hafa þá skoðun að það þjóni hagsmunum Íslendinga best að samþykkja þá samninga við Breta og Hollendinga, sem nú liggja fyrir. Ég er ekki sammála þeim - þvert á móti eigi íslensk stjórnvöld að standa á lagalegum rétti þjóðarinnar í þessu máli sem öðrum. Um hina efnahagslegu áhættu sem fólgin er í því að veita ríkisábyrgð vegna Icesave, ætla ég ekki að ræða að þessu sinni. 

Staðreyndin er sú að þeir samningar sem nú liggja fyrir eru á sama grunni og þeir samningar sem þjóðin hafnaði með afgerandi hætti í mars á síðasta ári. Um 93% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni sagði þvert nei við því að gangast í ábyrgð fyrir skuldum sem Landsbanki Íslands stofnaði til með starfsemi sinni í Hollandi og Bretlandi.

Það er með öllu óskiljanlegt að nokkur þingmaður velti því fyrir sér af nokkurri alvöru að samþykkja ríkisábyrgð og nýja samninga , án þess að sækja til þess sérstakt umboð til þjóðarinnar. Skiptir engu hverju djúpa sannfæringu menn hafa um nýja samninga. Það er fráleitt að halda að hægt sé að fara á bakvið landsmenn - í skjóli þess að nú séu samningar hagstæðari en áður - án þess að það hafi ekki einhverjar afleiðingar. Fyrst þá verður raunveruleg gjá milli þings og þjóðar. Ögrunin sem felst í því að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu mun valda siðrofi.
mbl.is Ýta á alla takka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband