Stórhættuleg hugmynd

Hugmyndin um að leggja sérstakt iðgjald á fjármálafyrirtæki til að greiða niður vexti vegna Icesave-samninganna, er stórhættuleg þó að hún sé sett fram af góðum hug. Afleiðingarnar verða skelfilegar ef þingmönnum dettur í hug að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.

Við skulum láta liggja á milli hluta, að hugmyndin um sérstakt Icesave-iðgjald, byggir á þeirri ranghugmynd að Icesave-skuldir Landsbankans sé skuld sem Íslendingar eigi að taka á sínar herðar. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er tillagan um Icesave-iðgjaldið komin frá Margréti Tryggvadóttur þingmanni Hreyfingarinnar. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins er greinilega hlynnt tillögunni. Í viðtali við Morgunblaðið segir hún:

"Þetta myndi þýða að fjármálakerfið mun borga fyrir þann hlut sem fellur á íslenska ríkið vegna Icesave, sem er þá fyrst og fremst vaxtakostnaður. Sá aukakostnaður kemur þá væntanlega fram í vaxtamun eða hagræðingu í rekstri hjá fjármálafyrirtækjunum. Önnur hugmynd er að sækja féð beint með bankaskatti."

Tvennt mun gerast með Icesave-iðgjaldinu. Annars vegar mun íslenska fjármálakerfið verða lamað með gríðarlegum álögum og möguleikar þess til að sinna atvinnulífinu og íslenskum almennings skerðast stórkostlega. Eini raunhæfi möguleiki banka og sparisjóða til að standa undir iðgjaldinu er að hækka vaxtamun - fjármunirnir verða ekki sóttir í hagræðingu sem fjármálafyrirtækin þurfa að fara í til að laga reksturinn. Aukinn vaxtamunur verður sóttur til þeirra sem eiga sparifé og til hinna sem skulda. Þannig munu útlánavextir hækka með afleiðingum sem þingmönnum ættu að vera ljósar. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja þyngist og fjármögnun nýrra tækifæra í atvinnu verða dýrari. Og samhliða munu innlánsvextir lækka og þar með verður gengið á hagsmuni sparifjáreigenda sem munu örugglega flýja með fjármuni sína annað - líklega í ríkispappíra. Eftir standa lömuð fyrirtæki, skuldug heimili og fjármálakerfi sem mun aldrei rísa undir nafni.

Hugmyndir sem settar eru fram í góðri trú eru ekki alltaf til heilla fyrir land og þjóð. Allra síst ef þær byggja á misskilningi.


mbl.is Innistæðutryggingagjald í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband