Hlýja í garð Ólafs Ragnars Grímssonar

Viðskiptablaðið bendir á að í leiðurum Morgunblaðsins hafi gætt nokkurrar hlýju í garð Ólafs Ragnars Grímssonar. Af einhverjum ástæðum rataði hluti viðtals við Davíð Oddsson ekki í prentaða útgáfu áramótablaðs Viðskiptablaðsins og er það birt á vef blaðsins í dag.

Davíð hælir Ólafi Ragnari þó stutt sé í gagnrýnina. En framganga forsetans í Icesave-málinu er Davíð að skapi. Hann hafi farið í fjölda viðtala við erlenda fjölmiðla og haldið fram málstað Íslendinga. Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið ófær til þess en Steingrímur J. Sigfússon svikist um það.

Mér finnst rétt að birta þennan hluta viðtalsins orðrétt:

„Hann [Ólafur Ragnar] auðvitað gat ekki annað en synjað Icesave lögunum eins og þau voru,“ segir Davíð aðspurður um fyrrgreint atriði.

„Þetta var tæpt í þinginu og svo komu 60 þúsund undirskriftir. Hann hafði áður gengið erinda Baugs með helmingi færri undirskriftir þannig að hann gat ekki gert þetta öðruvísi.“

Þá segir Davíð að áramótaskaup síðasta árs hafi augljóslega haft mikil áhrif á afstöðu forsetans í málinu. Í skaupinu hafi Bessastöðum verið breytt í dópbæli fyrir útrásarvíkinga og jafnvel þó stærsti hluti skaupsins hafi snúist um þetta hafi ekki einn einasti Íslendingur gert athugasemdir við það. Það sé mjög sláandi.

„Ólafur Ragnar er enginn kjáni og hann áttaði sig á stöðunni,“ segir Davíð.

„Og það verður hver að eiga það sem hann á. Forsetinn fór reglulega í viðtöl við erlenda fjölmiðla vegna málsins og gerir enn. Það er rétt að hrósa honum fyrir það. Þetta var auðvitað það sem forystumenn þjóðarinnar hefðu átt að gera en hafa aldrei gert. Það væri ósanngjarnt að segja að Jóhanna hefði svikist um það, hún er bara einfaldlega ófær til þess. Við þurfum að vera hreinskilin með það. Steingrímur er sjálfsagt ekki ófær um það en hann sveikst þó um það. Ólafur Ragnar gerði þetta mjög vel og með öflugum hætti.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband